Björn Leví ræðir þetta í Fréttablaðinu í morgun en greint var frá því í gær að Samkeppniseftirlitið hafi samþykkt söluna á Mílu til franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian. Eftirlitið hefur undanfarna mánuði verið í viðræðum við Ardian um breytt skilyrði á kaupunum en frummat eftirlitsins var það að vistaskiptin og tengdir samningar myndu að óbreyttu hindra virka samkeppni.
Í kjölfarið endursamdi Síminn við Ardian sem fól meðal annars í sér að gildistími heildsölusamnings milli Mílu og Símans var styttur úr 20 árum í 17 og kaupverðið lækkaði samtals um 8,5 milljarða og verða því 69,5 milljarðar. Innherji, viðskiptavefur Vísis, fjallaði ítarlega um söluna í gær.
Björn Leví bendir á í samtali við Fréttablaðið nýleg tilvik erlendra njósna, þegar Bandaríkin fengu leyfi frá öðru ríki til að stinga inn netþjóni til að njósna um Rússa. Full ástæða sé til, að mati þingmannsins, að vera vakandi um slíka hættu.
„Ef það er í lagi með reglur og eftirlit er ekkert að óttast. En það er of lítið vitað um stafrænar njósnir sem jafnvel eru dregnar áfram af þjóðríkjum. Við vitum allt of lítið um stærð þessa hernaðar,“ segir Björn Leví í samtali við Fréttablaðið.
„Þegar um erlenda aðila er að ræða erum við líka að ræða ítök erlendra stjórnvalda sem koma mögulega að rekstri og hagsmunum.“
Íslenskar eftirlitsstofnanir standi sig ekki sem skyldi.
„Almennt séð er eftirlitsiðnaðurinn þannig á Íslandi að það eru settar reglur, en ekkert farið eftir þeim. Ef eitthvað kemst upp er ekkert gert nema kannski setja þá meiri reglur. Ég sé þetta meira og minna í öllum eftirlitsstofnunum hér á landi, það er mikill skortur á ábyrgð.“