Hér má sjá þáttinn:
Nekt í náttúrulegum kringumstæðum
„Ég stundaði mikla módelteikningu þannig ég var vikulega að fara og teikna nakin módel. Ég varð rosalega hugfangin af líkamanum, sérstaklega kvenlíkamanum og formunum og aðallega að sjá hann undir náttúrulegum kringumstæðum,“ segir Júlíanna Ósk Hafberg um innblástur fyrir stórum verkum hennar af nöktum konum. Hún bætir við að nekt sé eðlilegt viðfangsefni sem ætti ekki að vera feimnismál en birtingarmyndir nektar hafi þó verið ansi afmarkaðar og kynferðislegar í dægurmenningu.
„Við sjáum oftast nektina og sérstaklega kvennektina bara undir formerkjum einhvers kynferðislegs nú í dag. Það er bara í klámi, kynlífi og bíómyndum en ég var allt í einu farin að sjá heilbrigða nekt á miklu náttúrulegri hátt í alls konar fallegum og náttúrulegum stellingum. Það var það sem mig langaði að gefa rými fyrir og það er það sem konuverkin mín fjalla um.
Að gefa kvenlíkamanum og kvennektinni pláss til að fá að vera til án þess að það sé hlutgert eða kyngert.“
Hún segir fjölbreytileikann hafa rutt sér til rúms að undanförnu hvað varðar ólíkar birtingarmyndir nektar og finnst mikilvægt að vera hluti af breytingunni.
„Við erum öll í grunninn nakin.“
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.