Herkvaðning Pútíns hefur verið sögð merki um það að innrás Rússa í Úkraínu gangi ekki eins vel og þeir hafi viljað en Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands hafi sagt Úkraínu vera að sigra.
Svo virðist sem ákvörðun Pútíns muni bitna verr á minnihlutahópum en öðrum en karlmenn sem tilheyri minnihlutahópum séu stærri hluti af hernum en aðrir, þeir hafi einnig látið lífið í meiri mæli í átökunum.
Þar að auki sé lítið vitað um hversu margir karlmenn skulu skikkaðir í herinn en möguleiki sé á því að allt að 55 ára gamlir karlmenn yrðu kvaddir í herinn. Einhverjir hafi þó lagt til að Rússar myndu reyna að fá milljón manna til viðbótar í herinn.
Guardian greinir frá því að langar raðir bíla séu við landamæri Rússlands og hafi sumir mannanna beðið eftir því að komast yfir landamærin í meira en sólarhring.
Við landamæri Rússlands og Georgíu hafi sumir gripið til þess að komast yfir landamærin á reiðhjólum og rafskútum. Þetta mikla flæði fólks að landamærunum eigi ekki aðeins við landamæri Rússlands og Georgíu heldur einnig Kasakstan og Mongólíu.
Þeir sem reyni að komast yfir landamærin eru sagðir hræddir um það að landamærin loki.
Ekki ríki samstaða meðal Evrópuríkja hvort þeim beri að taka á móti þeim sem flýi herkvaðninguna. Þó séu sum ríki að íhuga að breyta höftum á ferðir Rússa til sinna landa í ljósi stöðunnar sem nú hafi myndast.