Lífið

Sniðglíma á lofti reynd til að fella glímukóng Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Glímt við glímukóng Íslands, Ásmund Hálfdán Ásmundsson, á bakka Búðarár á Reyðarfirði.
Glímt við glímukóng Íslands, Ásmund Hálfdán Ásmundsson, á bakka Búðarár á Reyðarfirði. Sigurjón Ólason

Enginn bær á Íslandi státar af öflugri glímuköppum um þessar mundir en Reyðarfjörður. Glímukóngur Íslands, Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, handhafi Grettisbeltisins, og glímudrottning Íslands, Kristín Embla Guðjónsdóttir, handhafi Freyjumensins, eru bæði Reyðfirðingar.

Í nýrri þáttaröð Um land allt á Stöð 2 er Reyðarfjörður meðal þeirra samfélaga sem við kynnumst. Bærinn dregur nafn sitt af samnefndum firði, þeim lengsta á Austfjörðum, en þorpið hét upphaflega Búðareyri.

Glíman hefst. Þóroddur Helgason og Guðjón Magnússon fylgjast með.Sigurjón Ólason

Við Búðará, í hjarta byggðarinnar, hittum við þá Þórodd Helgason, glímuþjálfara og fræðslustjóra Fjarðabyggðar, Guðjón Magnússon, formann glímuráðs, og Ásmund Ásmundsson, glímukóng Íslands, og leitum skýringa á því hversvegna Reyðfirðingar séu svona öflugir í glímu.

Umsjónarmaður þáttarins, sem sjálfur þykist vera nokkuð stór og stæðilegur, stenst ekki mátið þarna á bakka Búðarár og skorar Ásmund glímukóng á hólm í von um að ná að hrifsa af honum Grettisbeltið og hyggst beita hinu þekkta glímubragði, sniðglímu á lofti.

Stígandinn þegar stigið er fram og aftur og í hring áður en tekist er á. Ásmundur hefur unnið Grettisbeltið sex sinnum.Sigurjón Ólason

Í kynningarstiklu má einnig sjá myndbrot úr fleiri þáttum en, eins og nafn sjónvarpsseríunnar vísar til, eru byggðir heimsóttar um land allt.

Í jaðri höfuðborgarsvæðisins kynnumst við áhugaverðu mannlífi og leyndum perlum umhverfis Elliðavatn og upp með Hólmsá og sjáum forvitnilegar hliðar á Rauðhólum, Gvendarbrunnum og Heiðmörk.

Í austanverðum Skagafirði er rótgróin sveitabyggð heimsótt í Fljótum. Þar hafa bændur staðið í búháttabreytingum samhliða uppbyggingu ferðaþjónustu í sveitinni þar sem hæst ber lúxushótelið að Deplum.

Hólar í Hjaltadal voru um aldir höfuðstaður Norðurlands og helsta valda- og menntasetur landsins ásamt Skálholti. Við kynnumst sögu biskupsstólsins og skólahalds en einnig því starfi sem þar fer fram í dag.

Fyrsti þáttur haustsins er á dagskrá Stöðvar 2 mánudagskvöldið 17. október. Hér má sjá kynningarstiklu þáttaraðarinnar Um land allt:


Tengdar fréttir

Þurfa að kunna íslensku til að komast í hestafræði á Hólum

Um fjörutíu prósent nemenda sem komast að í hestafræði við Háskólann á Hólum eru útlendingar, og það þrátt fyrir að það sé inntökuskilyrði að geta talað íslensku. Rektor segir skólann útskrifa að minnsta kosti tíu sendiherra á hverju vori.

Veiðiferð vísindamanna skilar vænum fiskafla úr Elliðavatni

Fiskstofnar í Elliðavatni dafna vel, samkvæmt árlegri úttekt vísindamanna, sem fengu hátt í þrjúhundruð væna silunga í net sín á einum sólarhring. Bleikju hefur þó fækkað, en sama þróun sést víðar á landinu, og er talin geta tengst hnattrænni hlýnun.

Segir lúxusferðamenn þýða minni átroðning en miklu meiri tekjur

Lúxushótel í Fljótum er orðið næst fjölmennasta fyrirtæki Skagafjarðar á eftir Kaupfélaginu. Hótelstjórinn hvetur til þess að Íslendingar leggi meiri áherslu á að fá efnaðri ferðamenn til landsins, það þýði minni átroðning en miklu meiri tekjur.

Rækta eitt óvenjulegasta afbrigði íslenska hestsins

Litförótt heitir eitt óvenjulegasta litaafbrigði íslenska hestsins en í því felst að hesturinn skiptir litum fjórum sinnum á ári. Litaafbrigðið var talið í hættu á að deyja út þegar hrossabændur hófu að reyna að bjarga því.

Taka við búskap á síðasta bóndabænum í Reyðarfirði

Síðasti bóndinn í hinum forna Reyðarfjarðarhreppi, sem er að hætta eftir hálfrar aldar búskap, spáir því að sauðfjárrækt leggist af sem atvinnugrein á Íslandi á næstu tuttugu til þrjátíu árum. Dóttir hans og tengdasonur ætla þó að taka við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.