
Ingibjörg Sólrún fyrrverandi forstjóri lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE og situr einnig í stjórn UN Women. Hún tók þátt í pallborðsumræðum með Margarita Roble Fernández varnarmálaráðherra Spánar á Heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu í morgun. Ingibjörg Sólrún sagðist því miður ekki getað flutt þinginu jákvæð skilaboð varðandi þátttöku kvenna í öryggis- og friðarviðræðum.

„Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mjög bjartsýn þegar kemur að friðar- og öryggismálum. Þannig að ég mun ekki flytja mjög jákvæð skilaboð hér um þátttöku kvenna í friðarviðræðum. Aðallega vegna þess að ég tel að aðalhindrunin í vegi friðarviðræðna almennt sé hvað það er lítil eftirspurn eftir þeim,“ sagði Ingibjörg Sólrún.
Karlmenn sýndu friðarmálum lítinn áhuga og konur hefðu ekki aðgang að þeim.

„Það er mjög erfitt að fara fram á aðgang að samningaborðinu þegar það er ekkert samningaborð eins og staðan er í dag. Þetta hef ég marg sinnis upplifað. Við þjálfum konur til þátttöku og tölum um hversu áríðandi þátttakan þeirra er og þær eru mjög reiðubúnar og vel þjálfaðar. Síðan er ekkert borð til samningaviðræðna,“ sagði Ingibjörg Sólrún.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók einnig þátt í pallborði með Sima Sami Bahous aðalframkvæmdastjóra UN Women, Kvennastofnunar Sameinuðu þjóðanna, um mikilvægi þess að konur gegni leiðtogahlutverkum.

Katrín sagðist telja það hafa skilað árangri að flytja jafnréttismálin undir forsætisráðuneytið.
„Ef við ætlum að skoða öll mál með gleraugum jafnréttis verða þau málefni að vera staðsett miðlægt í stjórnkerfinu. Þess vegna fluttum við málaflokkinn og ég tel að það hafi gagnast mjög vel. Ég verð ekki forsætisráðherra að eilífu og aðrir munu koma í minn stað og geta þá fært málaflokkinn aftur en ég held að þetta hafi komið vel út fyrir jafnréttismálin," sagði Katrín Jakobsdóttir á Heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu í morgun.