Tónlist

„Táknrænt fyrir það hvernig við speglum öll hvort annað og samfélagið okkar“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Tónlistarkonan Brynja var að senda frá sér tónlistarmyndband við lagið Breathe.
Tónlistarkonan Brynja var að senda frá sér tónlistarmyndband við lagið Breathe. Aðsend

Tónlistarkonan Brynja var að senda frá sér tónlistarmyndband við lagið Breathe en með henni á því er hollenska söngkonan Carlijn Andriessen sem notast við listamannanafnið Care. Blaðamaður tók púlsinn á þeim stöllum og fékk að heyra um þeirra samstarf.

Hér má sjá tónlistarmyndbandið:

Kynntust í Hollandi

„Við vorum partur af sama stúdíó teymi í Den Haag í Hollandi, sjö manna hópur sem þekktumst ekki öll þegar við byrjuðum en urðum saman náinn hópur af vinum og samstarfsaðilum,“ segja stelpurnar. Út frá því hófst samstarf þeirra.

Brynja og Care vinna vel saman.Aðsend

„Ég spurði Care hvort hún vildi syngja viðlagið í laginu Breathe með mér,“ segir Brynja og bætir við: „Hún er með mjög gott auga og ég er hrifin af öllu sem hún gerir svo ég spurði hana hvort hún væri til í að leikstýra tónlistarmyndbandinu. 

Við vorum með myndatökumann með okkur í liði og til að byrja með hafði ég bara hugsað mér að hún myndi standa aðeins á hliðarlínunni og hjálpa til við að finna flott sjónarhorn og koma með hugmyndir.

Í upphafi var hún ekki til í að leikstýra þessu því hún hafði aldrei leikstýrt tónlistarmyndbandi áður. Svo kom hún til mín nokkrum dögum seinna, sagðist hafa hugsað málið og væri til í þetta.“

Breathe er fyrsta lagið sem Brynja samdi fyrir plötuna sína.Aðsend

Brynja segist hafa verið virkilega ánægð með hana.

„Hún lagði mikla vinnu í að gera mood board, finna outfit, spegla, gera skotlista, klippa saman teasera og fleira.“

Borg, náttúra og speglar

Brynja sótti innblástur í borg og náttúru við gerð myndbandsins.

„Ég hafi líka hugsað um að nota spegla. Mér fannst það táknrænt fyrir það hvernig við speglum öll hvort annað og samfélagið okkar. Carlijn tók þessar hugmyndir og setti inn í sinn stíl.“

Speglar þjóna táknrænum tilgangi í myndbandinu.Aðsend

Það er löng saga á bak við bæði lagið og tónlistarmyndbandið að sögn Brynju.

„Þetta er fyrsta lagið sem ég samdi á plötunni minni en það er samið fyrir fjórum árum. Ég tók fyrst upp gítar útgáfu af laginu og var það ánægð með hana að ég var tilbúin að skjóta tónlistarmyndband við það og fékk þýskan leikstjóra til liðs við mig. Við tókum upp senur í Hollandi og Berlín fyrir myndbandið.“

Út frá því hélt Brynja áfram að vinna plötuna sína en fannst eins og pródúseringin á laginu Breathe passaði ekki við önnur lög á plötunni.

Ferlið á bak við lagið var rosalegt ferðalag að sögn Brynju.Aðsend

Nýtt upphaf

„Þetta lag var rosalegt ferðalag og ég var næstum búin að játa mig sigraða og sleppa því, en það hófst á endanum að klára það. Í fyrra sumar var lagið tilbúið og nánast öll önnur lög á plötunni.

Við áttum enn þessar gömlu tökur en lagið var komið í svo nýjan búning og nú var ég með Carlijn í laginu með mér svo það var eiginlega bara það eina í stöðunni að byrja upp á nýtt,“ segir Brynja en ákvörðunin hefur greinilega verið rétt. 

„Ég er svo ánægð að hafa haft Carlijn með mér í þessu ferli til að gera það allt miklu miklu betra, bæði lagið og myndbandið.“

Brynja og Care byrjuðu allt upp á nýtt við gerð myndbandsins.Aðsend

Það er ýmislegt á döfinni hjá bæði Brynju og Carlijn.

„Ég ætla að gera fleiri tónlistarmyndbönd, halda útgáfutónleika og vinyl plötu til að nefna eitthvað. Svo langar okkur Carlijn líka að gera meira tónlist saman svo vonandi heyrið þið meira frá okkur,“ segir Brynja að lokum.


Tengdar fréttir

Samdi lag fyrir þá sem eru í lægð

Tónlistarkonan Brynja Bjarnadóttir var að gefa út lagið My oh My sem er hluti af væntanlegri breiðskífa frá Brynju. Hún hefur verið starfrækt í íslensku tónlistarlífi undanfarin fjögur ár og átti meðal annars lag í íslensku Netflix seríunni Katla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.