Hin 69 ára Fernández var fundin sek um stjórnsýslubrot með því að hafa milligöngu um að samið hafi verið vin hennar um opinberar framkvæmdir í skiptum fyrir mútugreiðslur til hennar sjálfrar. Áttu brotin sér stað þegar Fernandez gegndi embætti forseta landsins á árunum 2007 til 2015.
Málið hefur skekið argentínsku þjóðina. Í frétt BBC segir að ólíklegt þyki að hún muni þurfa að afplána þar sem hún nýtur nokkurrar friðhelgi í krafti embættisins, auk þess að líklegt þykir að framundan sé langt áfrýjunarferli.
Dómari bannaði henni jafnframt að gegna opinberum embættum, en hún mun þó áfram gegna embætti varaforseta á meðan málið mun velkjast um í dómskerfinu.

Saksóknarar í málinu fóru fram á að varaforsetinn yrði dæmdur í tólf ára fangelsi vegna málsins, þar sem brotin hafi kostað argentíska ríkið um milljarð Bandaríkjadala. Fernández neitaði sök í málinu og segir málið vera runnið undan rifjum pólitískra andstæðinga.
Viðskiptamaðurinn og umræddur vinur Fernández, Lázaro Báez, var sömuleiðis dæmdur í sex ára fangelsi. Hann var á síðasta ári dæmdur í tólf ára fangelsi fyrir peningaþvætti.
Alls voru ellefu manns ákærðir í málinu og voru sjö þeirra fundnir sekir. Þrír voru sýknaðir og var mál eins vísað frá dómi.