Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. Fasteignaskattar reiknast sem hlutfall af fasteignamati og þegar það mat hækkar langt umfram almenna verðlagsþróun, þá er ekki von á góðu fyrir fasteignaeigendur, nema sveitarfélögin lækki álagningarprósentur sínar á móti.
Og það var einmitt það sem forystumenn flestra fjölmennustu sveitarfélaganna lýstu yfir í vetrarbyrjun, þegar þeir kynntu fjárhagsáætlanir sínar, að yrði gert. Álagningarprósentur yrðu lækkaðar svo hækkun fasteignaskatta færi ekki mikið umframt verðlagsþróun.
Ráðamenn Reykjavíkur eru þó undantekningin. Afleiðingin er sú að í borginni þurfa menn að þola tvöfalt ef ekki ennþá meiri skattahækkun en flestir aðrir landsmenn.

Þannig hækkar meðal fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði í Reykjavík úr 96 þúsund krónum upp í 116 þúsund krónur, samkvæmt tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Skattahækkunin nemur 20 þúsund krónum, eða 20,7 prósentum.
Meðal fasteignaskattur á íbúð í fjölbýli fer úr 82 þúsund krónum upp í 98 þúsund krónur. Það er nærri 16 þúsund króna skattahækkun, eða 19,2 prósenta hækkun.
Meðal skattur á sérbýli fer úr 138 þúsund krónum upp í 173 þúsund krónur. Þetta er skattahækkun upp á 35 þúsund krónur, eða 25,2 prósent.
Þegar álagningarprósentur á íbúðarhúsnæði í sex stærstu sveitarfélögunum eru bornar saman sést að fasteignaskattur í Reykjavík helst áfram 0,18 prósent af fasteignamati.

Í Kópavogi lækkar skatturinn úr 0,20 niður í 0,17. Prósentan í Hafnarfirði helst óbreytt en þar verður vatnsgjald í staðinn lækkað til að heildarhækkun fasteignagjalda fari ekki yfir 9,5 prósent. Í Reykjanesbæ lækkar prósentan úr 0,30 niður í 0,25, á Akureyri úr 0,33 niður í 0,31 og í Garðabæ úr 0,179 niður í 0,166.
Garðabær og Kópavogur verða þannig með lægsta skattinn en Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Akureyri talsvert hærri en Reykjavík.

Prósentan segir þó ekki alla söguna því fasteignaverð er mismunandi eftir bæjarfélögum og landshlutum. Þannig sést í samanburði á meðal skatti á íbúð í fjölbýlishúsi á árinu sem er að líða að Reykjavíkurborg fékk hærri skatt af hverri íbúð en Reykjanesbær, þrátt fyrir mun lægri skattprósentu. Kópavogur og Hafnarfjörður fengu svo hæsta skattinn af fjölbýli að meðaltali.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2: