Dómstóllinn birti greinargerð í máli sakborninganna í dag þar sem raktar voru ástæður fyrir gæsluvarðhaldsúrskurðinum. Bræðurnir eru taldir sérstaklega hættulegir og eru sagðir hafa einbeitt sér að fórnarlömbum, konum, í viðkvæmri stöðu. Þær hafi verið neyddar til að vinna sleitulaust í tólf klukkustundir í senn og í besta falli fengið fimm mínútna pásu.
Sjá einnig: Gæsluvarðhald Andrew Tate framlengt um þrjátíu daga
Þá hafi einnig verið nauðsynlegt að tryggja áframhaldandi gæsluvarðhald með tilliti til almannahagsmuna og almenningsálits. Þeir þurfa því að sitja í gæsluvarðhaldi þar til 27. febrúar næstkomandi en gert er ráð fyrir því að áfrýjun verði tekin fyrir í næstu viku.
Bræðurnir eru í haldi ásamt tveimur rúmenskum konum. Fjórmenningarnir eru taldir hafa neytt konur til að framleiða klám á netinu, sem deilt var á síðum á borð við OnlyFans og TikTok. Hafi sálræn misneyting ekki gengið eftir, segir dómarinn að gripið hafi verið til líkamlegs ofbeldis.
Dómari segir bræðurna hafa beitt sérstakri aðferð (e. loverboy-method) sem jafnan hefur verið beitt gegn mansalsfórnarlömbum. Bræðurnir hafi talið konunum trú um að þeir hefðu áhuga á ástarsambandi við þær og lokkað þær til sín á fölskum forsendum.
Tate hefur neitað ásökununum og segir saksóknara í Rúmeníu ekkert hafa í höndunum. Hann segir engin sönnunargögn hafa fundist og eina ástæðan fyrir fangelsisvistinni væri að yfirvöld í Rúmeníu ætluðu að stela bílunum hans og peningum.