Samkvæmt tölum frá embætti landlæknis var tæplega fjórðungur fullorðinna Íslendinga á þunglyndis- og/eða kvíðalyfjum árið 2021. Frá árinu 2013 til 2021 hefur þunglyndislyfjaávísunum fjölgað um rúm 40 prósent. Þá má sjá á tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, að notkun þunglyndislyfja hér á landi er mun meiri hlutfallslega en annars staðar.
„Núna má merkja verulega aukningu á notkun þunglyndislyfja og þá sérstaklega merkjanlega í alþjóðlegu samhengi, þá er hún meiri hér á landi,“ segir Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Aukin notkun þunglyndislyfja verður rædd sérstaklega á Alþingi í dag að beiðni Berglindar og mun Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, svara þar spurningum þingmanna.
Skoða þurfi rót vandans
Berglind segir að skýringar um að notkun þunglyndislyfja hafi í aukist í kjölfar geðheilbrigðisátaks veki furðu.
„Þessi sérstaða Íslands kallar á mun dýpri skoðun þar sem við greinum rót vandans því við vitum fátt um orsakir þessarar auknu vanlíðunar. Við ættum auðvitað að vera löngu komin með einhver svör í stað þess að vera með endalausar getgátur um allt,“ segir Berglind.
„Það er ekki einungis hægt að vísa til þess að aukin áhersla og umræða um geðheilbrigði og geðrækt sá ástæða aukinnar vanlíðunar í samfélaginu.“
Spyr hvort félagsleg einangrun bitni enn á geðheilsu þjóðar
Ráðast þurfi á rót vandans, sem megi til dæmis rekja til fordóma innan kerfisins.
„Það er oft talað um að lélegt aðgengi að geðheilbrigðisúrræðum sé hægt að rekja til fordóma gagnvart geðröskunum. Þá er spurning hvort við þurfum að ráðast í átak gegn fordómum gegn geðröskunum innan heilbrigðiskerfisins,“ segir Berglind.
Þá sé tilefni til að skoða sérstaklega andlega heilsu þjóðarinnar í kjölfar heimsfaraldurs.
„Þar er mörgum spurningum ósvarað, eins og hvort metnir hafi verið aðrir þættir á móti þeim sóttvarnaráðstöfunum sem var gripið til, eins og félagsleg einangrun, hvort þetta hafi verið metið nægjanlega á móti þeim ráðstöfunum sem var gripið til. Það þarf að gera það til að varpa ljósi á hvaða áhrif þetta hafði á geðheilsu þjóðarinnar, sem við sjáum að fer nú hrakandi.“