Á vef Veðurstofunnar segir að það verði sunnan fimm til þrettán metrar á sekúndu í dag en hægari í kvöld. Það kólnar talsvert og allvíða verður slyddu- eða snjóél fyrir norðan.
Hiti verður svo fjögur til níu stig í dag.
„Breytileg átt 3-10 á morgun. Dálítil slydda eða snjókoma um landið norðanvert, annars stöku skúrir eða él. Hiti um og undir frostmarki fyrir norðan, en að 8 stigum syðst,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Suðvestan 3-10 sunnantil, skúrir og hiti 1 til 6 stig, en norðlæg átt, 3-8 m/s norðantil og slydda eða snjókoma með köflum. Hiti þar um eða undir frostmarki.
Á fimmtudag (skírdagur): Hæg suðvestlæg eða breytileg átt. Dálítil él í flestum landshlutum Hiti 0 til 6 stig, en vægt frost norðan heiða. Vaxandi suðaustanátt sunnantil um kvöldið.
Á föstudag (föstudagurinn langi): Suðaustan 13-20 m/s og rigning sunnan- og vestanlands. Talsverð rigning sunnanlands. Hægari og úrkomulítið norðaustantil. Hiti 3 til 9 stig.
Á laugardag: Sunnanátt með rigningu, en að mestu þurrt fyrir norðan. Hiti 4 til 10 stig.
Á sunnudag (páskadagur): Ákveðin suðaustanátt með rigningu um landið sunnanvert, en lengst af þurrt fyrir norðan. Hiti breytist lítið.
Á mánudag (annar í páskum): Útlit fyrir suðlæga átt með skúrum á víð og dreif. Hiti 2 til 7 stig.