Regluleg og mikil hitanotkun getur haft skaðleg áhrif á hárið. Hitinn getur valdið því að hárið verður þurrt og getur jafnvel brotnað. Vinsældir hárgreiðslna sem ekki krefjast hita hafa því aukist gríðarlega síðustu ár.
Þó svo að hártískan fari vissulega í hringi eru fallegar krullur alltaf í tísku. Það eru eflaust margir sem halda að eina leiðin til þess að galdra fram krullur sé að nota krullujárn - en svo er aldeilis ekki.
Hér fyrir má sjá tvær leiðir til þess að ná fram fullkomnum krullum án þess að nota hita á hárið. Þá eru þetta einnig frábærar leiðir til þess að spara sér tíma á morgnanna.

Nýttu náttsloppinn
Náttsloppur ætti að vera til á flestum heimilum. Hægt er að nota mittisbandið af sloppnum til þess að búa til fallegar krullur. Ef það er ekki til náttsloppur á heimilinu má einnig nota nylon sokkabuxur eða silkitrefil.
Best er að hárið sé örlítið rakt. Hárinu er vafið utan um bandið líkt og má sjá í myndbandinu hér að neðan. Til þess að útkoman verði sem best er gott að gera þetta að kvöldi til og sofa með bandið í hárinu.
Næsta morgun er bandið tekið úr hárinu og hárið ætti að vera vel krullað. Hægt er að greiða úr krullunum með hárbursta til þess að ná fram mjúkum og flæðandi krullum. Einnig er hægt að hrista upp í hárinu og jafnvel túbera það örlítið fyrir villtari krullur.
Sokkarnir fá nýjan tilgang
TikTok-stjarnan Yesenia Hipolito hefur vakið mikla athygli fyrir aðferð þar sem hún notar sokka til þess að galdra fram hið fullkomna „blow-out“ eða blásturskrullur sem hafa verið það allra heitasta undanfarin misseri.
Hipolito notar sokka og nokkrar svamprúllur. Svamprúllurnar setur hún inn í sokkana. Hárinu vefur hún svo utan um sokkana líkt og sjá má í myndbandinu hér að neðan. Aðferðin hefur notið gríðarlegra vinsælda enda útkoman stórkostleg og tímasparnaðurinn mikill.
Vaknar eins og Hollywood-stjarna
Svamprúllur eru þó ekki nauðsynlegar, því það má einnig nota háa sokka og binda þá saman til þess að þeir haldist í hárinu, líkt og sjá má í myndbandinu hér að neðan. Best er að setja sokkana í rakt hár að kvöldi til og sofa með þá í hárinu. Sokkarnir eru svo fjarlægðir um morguninn og þá er gott að hrista upp í hárinu og jafnvel spreyja það með smá hárspreyi - og þú getur haldið eins og Hollywood-stjarna út í daginn.