Tilkynning um slysið barst á ellefta tímanum í morgun. Fólksbifreið fór þá út af veginum og valt einu sinni eða oftar, að því er segir í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Vestfjörðum. Björgunarsveitir, sjúkrabifreið og tækjabíll frá Patreksfirði ásamt lögreglu fóru á vettvang.
Ökumaðurinn var einn í bílnum og sat fastur í flakinu. Vegfarendur sem komu á vettvang náðu að hlúa að ökumanninum þar til viðbragðsaðilar komu þangað. Á meðal þeirra voru læknir og hjúkrunarfræðingur.
Kallað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar en hún var þegar á lofti á leið á æfingu þegar kallið barst. Henni var beint á slysstað og flutti hún ökumanninn á Landspítalann í Fossvogi.
Rannsókn á tildrögum slyssins er sögð í höndum lögreglunnar á Vestfjörðum og rannsóknarnefndar samgönguslysa.