Þáttinn má sjá í spilaranum hér fyrir neðan:
Hanna Dís opnaði sýninguna Blíður ljómi í Gallery Port í tengslum við HönnunarMars og má lýsa sýningunni sem eins konar draumkenndum heimi. Hanna afmarkar sig ekki við ákveðinn listmiðil og segir forvitni einkenna listsköpun sína, þar sem hún er óhrædd við að vera hún sjálf og skapa á eigin forsendum.
Aðspurð hvort álit annarra spili veigamikið hlutverk í hennar sköpunarferli segir Hanna svo ekki vera.
„Ég er kannski svolítið eigingjörn, en þú fórnar alveg fullt fyrir það að vera í þessu. Þetta er ekki stöðug innkoma af peningum eða eitthvað svoleiðis heldur mjög svona upp og niður. Afhverju ættir þú þá að gera eitthvað annað en það sem er þinn sannleikur? Maður er að fórna það miklu að maður verður að fara sína eigin leið. Mér finnst það allavega. Það er kannski svolítið eigingjarnt, en þannig er það bara.“
Hún segir skemmtilegast að gera hlutina út frá sjálfri sér.
„Það hefur alveg komið fyrir að fólk reynir að beina mér á réttan stað. Þú ættir kannski að fara að framleiða þetta, gera þetta, einbeita þér að einu efni eða eitthvað svoleiðis, en þá hugsar maður bara og hvað lifir maður lengi? Og svo verður maður kannski fyrir valtara eða eitthvað og hvað gerirðu þá?“
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.
Hér fyrir neðan má sjá fleiri þætti af KÚNST. Berglind Rögnvaldsdóttir var viðmælandi í síðasta þætti af Kúnst en hún notast gjarnan við viðfangsefni á borð við kvenlíkamann og náttúruna og má segja að verk hennar séu femínísk og einkennist af kvennakrafti.
Listakonan og leikstjórinn Anna Maggý reynir að skilja eftir rými fyrir túlkun og upplifun áhorfandans en ákveðin dulúð einkennir verkin hverju sinni.
Listakonan Rakel Tómasdóttir hefur verið sjálfstætt starfandi síðastliðin ár og er í grunnin menntuð í grafískri hönnun. Viðfangsefni hennar einkennast gjarnan af konum og kvenlíkamanum en hún hefur einnig ferðast ein víða um heiminn og sótt innblástur í ævintýri ferða sinna.