Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra með yfirlýsinguna í höndunum. Vísir/Vilhelm
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, undirrituðu í morgun yfirlýsingu um að Evrópuráðið skrásetji það tjón sem Rússar hafi valdið og eru að valda í Úkraínu.
Leiðtogafundur Evrópuráðsins sem fram fer í Hörpu í Reykjavík hélt áfram í morgun og mun honum ljúka síðar í dag.
Fyrir fundinum lá að samþykkja formlega gerð sérstakrar skrár vegna þess tjóns sem innrás Rússlands hefur valdið Úkraínu, með það að markmiði að fá það síðar bætt. Sú yfirlýsing var undirrituð í morgun.
Á fundinum verður sömuleiðis leitað leiða til að draga rússnesk stjórnvöld til ábyrgðar vegna glæpa sem framdir hafa verið í Úkraínu.
Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar verður í beinni útsendingu frá Hörpu nú í morgunsárið og fylgist með þróun mála fram eftir degi í vaktinni hér á Vísi.