Víkingar höfðu unnið níu fyrstu leiki sína og aðeins fengið á sig tvö mörk í þeim. Valsmenn unnu 3-2 í Víkinni i gær en Víkingsliðið hefði getað náð átta stiga forystu með sigri. Nú eru Valsmenn bara fimm stigum á eftir.
Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr Bestu deild karla í fótbolta frá því í gær. Engin voru mörkin í leik Keflavíkur og Breiðabliks en aftur á móti voru skoruð ellefu mörk í hinum tveimur leikjunum.
Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja fyrir Aron Jóhannsson í sigri Valsmanna í Fossvoginum. Metmark frá Nikolaj Andreas Hansen (markahæsti Víkingurinn í efstu deild) minnkaði muninn í 2-1 og lokamark leiksins var sjálfsmark Valsmarkvarðarins Frederiks Schram.
Varamaðurinn Jakob Snær Árnason tryggði KA 4-2 sigur á Fram fyrir norðan með tveimur mörkum undir lokin en hin mörk KA-liðsins skoruðu þeir Hallgrímur Mar Steingrímsson og Bjarni Aðalsteinsson eftir stoðsendingu frá Hallgrími. Guðmundur Magnússon og Frederico Saraiva skoruðu mörk Framara.