„Þetta eru þrjú einföld verkefni sem hægt er að fara í núna strax og munar virkilega um á tímum mikillar verðbólgu og vaxtahækkana,“ segir Kristrún um tillögurnar sem flokkurinn leggur til. Hægt sé að koma breytingunum á fyrir þinglok.
Í fyrsta lagi er um að ræða eigna og tekjutengdan vaxtabótaauka fyrir skuldsettheimili. Það er eingreiðsla upp á 200 þúsund krónur fyrir einstaklinga og 350 þúsund fyrir sambýlisfólk og einstæða foreldra á þessu ári.
Í öðru lagi er það leigubremsa að danskri fyrirmynd sem ver fólk fyrir fyrirsjáanlegum stórfelldum hækkunum á leigumarkaði.
Að lokum er það ívilnun til uppbyggingar til að styðja við óhagnaðardrifin leigufélög og viðhalda hvata til byggingar.
Loka ehf gatinu
Kristrún segir að Samfylkingin sé ábyrg í sinni afstöðu þegar kemur að tillögum sem þessum og því sé mikilvægt að verkefnin séu fjármögnuð. Þetta segir hún að hægt sé að gera með breytingu á skattkerfinu.

„Ein leið til þess að fjármagna allar þessar tillögur er að loka ehf gatinu svokallaða. Það er skattaglufa sem gerir tekjuháum kleift að telja launatekjur sem fjármagnstekjur,“ segir Kristrún. „Með öðrum orðum þá er hópur fólks að borga lægri skatta en þorri almennings út af glufu í kerfinu. Ríkisstjórnin hefur talað fyrir þessu en við erum enn þá að bíða eftir þingmáli þessu tengt.“
Vegna þessarar glufu tapist um átta milljarðar króna af skattfé árlega.
Kristrún segir að þó að þessar tillögur séu hugsaðar sem skammtímaaðgerðir til þess að bregðast við ástandinu þá eigi þær erindi inn í framtíðina.
„Við viljum sjá réttlátari skattheimtu í landinu og virkara vaxtabótakerfi,“ segir hún.
Aðgerðir stjórnarinnar
Ríkisstjórnin tilkynnti aðgerðir gegn verðbólgunni klukkan 16 í dag. Meðal annars sparnað í ríkisrekstri upp á rúma 36 milljarða með frestun framkvæmda, niðurskurði í ferðakostnaði og fleiru. Munu laun æðstu embættismanna og þjóðkjörinna fulltrúa hækka um 2,5 prósent í stað 6. Örorku og ellilífeyrir verður hækkaður um 2,5 prósent til viðbótar á árinu. Stofnframlög til uppbyggingar almennra leiguíbúða verða tvöfölduð.
Þá verður unnið að lagabreytingum sem munu bæta réttarstöðu leigjenda og starfshópur skila tillögum þar af lútandi í sumar. Frítekjumark húsnæðisbóta verður hækkað um 2,5 prósent, afturvirkt frá 1. janúar.