Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu sveitarfélaganna. Þar segir að kosningunni ljúki þann 28. október 2023.
Þrjátíu ár verða liðin á næsta ári frá því öll sveitarfélög á sunnanverðum Vestfjörðum nema Tálknafjörður sameinuðust í Vesturbyggð. Patreksfjörður og Bíldudalur runnu þar saman en Tálknafjörður, sem er þar á milli, varð útundan.
Tálknfirðingar höfðu tvívegis fellt sameiningu áður en þeir samþykktu loksins að fara í viðræður um hana í ár.
Skipuðu samstarfsnefnd sem skipaði sjö starfshópa
Sveitarstjórnir Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar samþykktu í febrúar að skipa samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna. Hún skipaði í kjölfarið sjö starfshópa sem fjölluðu um málaflokka sveitarfélaganna og lögðu fram efni og upplýsingar í greiningu og tillögugerð.
Minnisblöð frá vinnu starfshópanna eru aðgengileg á vefsíðu verkefnisins, vestfirdingar.is, og var verkefnið kynnt á íbúafundum með virku samtali við íbúa.
Samstarfsnefndin skilaði í kjölfarið áliti sínu til sveitarstjórna þann 14. júní síðast liðinn þar sem fram kemur að sameining sé talin framfaraskref fyrir bæði sveitarfélög.
Skora á Alþingi að undirbúa jarðgangagerð
Sveitarstjórnirnar skora báðar á Alþingi og ríkisstjórn að hefja undirbúning við gerð jarðgangna um Mikladal og Hálfdán í einni framkvæmd enda sé sú framkvæmd forsenda fyrir farsælli sameiningu sveitarfélaganna.
Í vinnu starfshópanna hafi komið skýrt fram að forsenda þess að sameining skili árangri sé að svæðið myndi einn búsetu-, atvinnu- og þjónustukjarna þar sem hægt er að ferðast milli byggðakjarna á öruggan hátt allan ársins hring.
Þá er einnig vakin athygli á því að jarðgöng um Mikladal og Hálfdán séu „í samræmi við stefnu stjórnvalda og Alþingis um að útrýma hættulegum fjallvegum, í samræmi við loftslagsstefnu, styður við jafnrétti á landsbyggðinni sem og uppbyggingu fiskeldis á svæðinu svo fáein dæmi séu nefnd.“
Sveitastjórnirnar leggja til að hönnun jarðgangnanna verði sett á dagskrá fyrsta hluta samgönguáætlunar og að framkvæmd jarðgangnanna verði á öðrum hluta samgönguáætlunar.