Þýskaland vann leikinn með sex mörkum gegn engu. Þegar Ghizlane Chebbak, fyrirliði marokkóska liðsins, mætti á blaðamannafund eftir leik beið hennar nokkuð óvenjuleg spurning frá blaðamanni BBC.
„Það er ólöglegt að vera í samkynhneigðu sambandi í Marokkó. Eru einhverjir samkynhneigðir leikmenn í ykkar liði og hvernig er lífi þeirra í Marokkó háttað?“ spurði blaðamaðurinn.
Chebbak var mjög undrandi á spurningunni, horfði á þjálfara sinn og hló svo. Aðrir blaðamenn voru ósáttir við spurninguna og fundarstjóri bað blaðamenn vinsamlegast að halda sig við spurningar sem tengdust fótbolta.
Fjölmargir gagnrýndu blaðamanninn líka á samfélagsmiðlum. BBC hefur nú beðist afsökunar á spurningunni.
„Við áttum okkur á að spurningin var óviðeigandi. Við ætluðum ekki að meiða eða særa neinn,“ sagði í yfirlýsingu BBC.