Lífið

Týndi syni sínum í Nice: „Ég gat ekki hætt að gráta“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Haraldur greindi frá atvikinu í Twitter færslu í dag. 
Haraldur greindi frá atvikinu í Twitter færslu í dag.  Vísir/Vilhelm

Haraldur Þorleifsson, eigandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, týndi sex ára syni sínum um stund í borginni Nice í Frakklandi í dag. Hann sagði uppákomuna þá mest ógnvekjandi í lífi hans í Twitter færslu í dag.

„Fyrr í dag misstum við sjónar á sex ára syni okkar í borg sem ég hef ekki áður komið til,“ segir í færslu Haraldar. „Við vorum á fjölfarinni götu, við snerum okkur við í augnablik og þá var hann farinn.“

Í kjölfarið segir að hjónin hafi fundið lögregluþjóna sem töluðu bjagaða ensku. Eiginkona hans, elsti sonur og faðir hans hafi hlaupið um og leitað sonarins meðan hann birti Twitter færslu þar sem hann bað fylgjendur sína um hjálp, en þeir eru nær þrjú hundruð þúsund talsins. 

„Það eina sem ég gat hugsað um var hversu mikilvægar fyrstu mínúturnar væru í aðstæðum sem þessum, sérstaklega hefði honum verið rænt,“ segir í færslunni.

„Faðmaði hann eins fast og ég gat“

Haraldur þakkaði öllum sem veittu honum hjálp en vakti athygli á að hann hafi að auki fengið hatursfull skilaboð frá fólki þar sem honum var sagt að hann væri vont foreldri, „Ég get ekki ímyndað mér illskuna sem þarf til þess að segja eitthvað slíkt.“

Hann segir frá því þegar honum var tilkynnt að sonurinn væri fundinn. 

„Um leið og þeir tjáðu mér að hann væri fundinn brotnaði ég niður. Ég gat ekki hætt að gráta. Við hlupum öll til hans. Hann hafði ratað aftur að hótelinu okkar. Hann var hræddur en óhultur. Ég faðmaði hann eins fast og ég gat,“ segir í færslu Haraldar. Þá segist hann aldrei hafa verið hræddari en þegar atvikið stóð yfir.

Færsluna í heild sinni má sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.