Menning

„Mikil­vægt að mynd­list geti líka verið ó­geðs­leg“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Helena Margrét opnar sýninguna Alveg eins og alvöru í D sal Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, í kvöld klukkan 20:00.
Helena Margrét opnar sýninguna Alveg eins og alvöru í D sal Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, í kvöld klukkan 20:00. Vísir/Vilhelm

„Mér finnst gaman að kveikja á alls konar tilfinningum hjá áhorfendum. Mér finnst líka gaman að taka eitthvað sem mér finnst ógeðslegt eins og köngulær og ég reyni alltaf að gera þær girnilegri en þær eru í raun,“ segir myndlistarkonan Helena Margrét Jónsdóttir opnar einkasýningu í D sal Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsinu í kvöld. Blaðamaður hitti hana í kaffi og fékk að heyra nánar frá.

Sýningin ber heitið Alveg eins og alvöru og er þetta fyrsta einkasýning sem Helena opnar á safni. Hún er 27 ára gömul og hefur nú þegar sýnt verk sín víða um heiminn en verk hennar einkennast af raunsæi þar sem hún leikur sér þó aðeins með mörk hins raunverulega og óraunverulega.

Mikilvægur vettvangur fyrir unga listamenn

„Það er svo ótrúlega mikilvægt fyrir mér að fá að sýna á þessu safni og þessi mikilvægi vettvangur er náttúrulega búinn til fyrir unga listamenn sem eru að stíga fyrstu skrefin. Þetta er svo geggjað rými og mig er búið að langa að sýna þarna svo ótrúlega lengi. Ég er náttúrulega mjög spennt en ég er á sama tíma smá stressuð.“

Helena Margrét útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2019 en segir þó að henni líði eins og hún sé nýútskrifuð.

„Ég var í síðasta bekknum sem náði að útskrifast fyrir Covid en ég upplifi smá eins og faraldrinum hafi verið þjappað saman í eitt ár og það breytir svolítið tímaskyninu. Það tekur líka alltaf tíma að byggja upp ferilinn sinn og hvert verk sem ég geri tekur mig langan tíma.

Á sama tíma er maður alltaf að þróast en tekur kannski ekki jafn mikið eftir því vegna þess að það gerist aðeins hægar. Svo þegar maður lítur til baka sér maður hversu langt maður er kominn þó að skrefin hafi kannski virkað hæg fyrir manni.“

Vísir/Vilhelm

Eftirlíking af eftirlíkingu

Helena segist hafa fengið mikið af góðum og verðmætum tækifærum í myndlistarheiminum eftir útskrift og þá sé sýningin í D salnum ómetanlegt tækifæri.

„Ég var ekki að búast við því að umsóknin mín yrði samþykkt, það er svo mikið af flottu fólki í bransanum í dag og ég er bara ótrúlega þakklát.“

Eins og áður segir er titill sýningarinnar Alveg eins og alvöru.

„Það er bæði vísun í málverkið, af því að ég er að vinna með raunsæismálverk. Þetta er eitthvað sem fólk segir gjarnan, að verkin séu alveg eins og alvöru, það raunsæ að þau líkist raunverulega hlutnum sem ég mála eftir.

En svo er ég líka að mála hluti sem eru að líkja eftir einhverju öðru. Til dæmis gerviblóm og tuskudýrs köngulær, þannig að eftirlíkingin verður tvöföld. Málverk af einhverju sem er að líkja eftir einhverju. Mig langaði líka að ná ólíku áferðum, ég er með loð og hár í verkunum þannig að þetta er mjög áferðaríkt og auðvitað eru köngulærnar þarna,“ segir Helena Margrét kímin en köngulær hafa einkennt verk hennar frá því að hún útskrifaðist. Þó skal tekið fram að hún er brjálæðislega hrædd við köngulær.

„Köngulær eru einhvern veginn tákn fyrir ótta og fóbíu og kvíða. Ég held að þetta sé ein algengasta fóbían þannig að fyrir mér er þetta stærsta myndræna tákn fælni. Ég held að engum líki sérstaklega vel við þær og ég er náttúrulega ógeðslega hrædd við þær. 

Mér finnst gaman að para þær saman við hin algengu viðfangsefnin í verkunum mínum sem eru hvítvín, nammi, snakk, skór og fötin, þetta sem táknar upp á móti eitthvað sem er girnilegt og þig langar í. Þannig að það verður þessi togstreita á milli löngunar og ótta.“

Köngulærnar eru orðnar órjúfanlegur hluti af listrænni tjáningu Helenu. Á sýningunni málar hún þó eftir tuskudýrs köngulóm og finnur fagurfræðina í þeim.Instagram @helenamargret

Stutt milli löngunar og ótta

Hún segir oft stutt á milli löngunar og ótta og því þyki henni sérstaklega gaman að stilla þessu upp saman.

„Mikið af hlutum í verkunum mínum snúa að einhverju sem þig langar í en þú ert ekki að ná í það, það gengur ekki upp og það er búið að spilla því einhvern veginn. Ég er til dæmis með verk sem er brotið vínglas og það er að leka úr því. 

Þannig að það er búið að stilla upp skýrum löngunum og svo er einhver klaufaskapur sem veldur því að þú getur ekki fengið það sem þig langar í. Eða að það er könguló fyrir þannig að þig langar ekki lengur í það og þig langar ekki að koma nálægt því. Mér finnst svo áhugavert að leika mér með þetta saman og samspilið þar á milli.“

Brotna vínglasið sem er ekki hægt að drekka úr þrátt fyrir löngun. Helena Margrét

Þrátt fyrir köngulóaótta sinn hefur Helena Margrét málað þær í um fimm ár.

„Fólk er oft búið að spyrja mig hvernig ég geti málað þetta. Ég hélt að þetta yrði fín berskjöldunarmeðferð (e. exposure therapy) en þetta hefur ekki haft nein áhrif á hræðsluna mína,“ segir Helena hlæjandi og bætir við:

„Ég er eiginlega alveg búin að venjast þeim sjónrænt en það er hreyfingin sem nær mér alltaf.“

Varð hrædd við eigið verk

Verkin kveikja stundum á óþægindatilfinningu hjá áhorfendum og lenti Helena sjálf í því um daginn að verða svolítið skelkuð við eitt verk eftir sig.

„Ég var þá að mála stærsta verkið á sýningunni og var sitjandi að einbeita mér að kúrekastígvéli neðst á striganum. Það er lítil könguló ofar á striganum sem ég var búin að mála áður en sá hana svona út undan mér frá öðru sjónarhorni og mér brá svo mikið að ég þurfti alveg að taka mér smá pásu,“ segir Helena og skellir upp úr.

„Ég skil þess vegna alveg fólk sem kemur á sýningar og finnst þetta óþægilegt. Ég er náttúrulega að mála raunsætt þannig að þessar köngulær eru alveg raunverulegar. Ég var með mjög mikið af köngulóaverkum á sýningunni minni í Ásmundarsal í fyrra og það voru alveg gestir sem þurftu að fara út því þeim leið svo illa. Og ég skil það alveg vel.“

Ógirnilegar langanir og fallegar köngulær

Helena Margrét bætir þá við að sér þyki gaman að kveikja á alls konar tilfinningum hjá áhorfendum. 

„Mér finnst líka gaman að taka eitthvað sem mér finnst svona ógeðslegt eins og köngulærnar og ég reyni alltaf að gera þær girnilegri en þær eru í raun. Þannig að ég bæti við glampa og reyni að velja flottar köngulær, sem er svolítil þversögn. 

Ég þarf náttúrulega alltaf að leita að myndum af köngulóm til að mála eftir og ég reyni alltaf að velja þær sem mér finnst sjónrænt koma vel út, vera fallegar og vel staðsettar, og mér finnst þær eiginlega fallegar núna. En á sama tíma er ég náttúrulega að vinna með þetta samspil á milli þess sem er ógeðslegt og þess sem er aðlaðandi og mér finnst alveg mikilvægt að myndlist geti verið ógeðsleg á sama tíma. Þær eru því að mínu mati bæði ógeðslegar og aðlaðandi, þegar ég er búin að mála þær.

Girnilega getur því orðið ógeðslegt og hið ógeðslega getur orðið girnilegt. Mér finnst alltaf gaman þegar ég næ að spila það saman og leika mér að þessum skala.“
Helena Margrét hefur gaman að því að leika sér að mörkum hins girnilega og ógeðslega.Instagram @helenamargret

Ítalía, Stokkhólmur og Miami

Samhliða því að opna einkasýninguna hjá Listasafni Reykjavíkur er ýmislegt spennandi á döfinni hjá Helenu Margréti.

„Ég er að fara að sýna í Capri á Ítalíu í haust á samsýningu í gallerýi sem heitir Plan x. Svo verð ég með einkasýningu í Stokkhólmi í desember hjá gallerýi sem heitir Carl Kostyál og er staðsett í rými sem heitir Hospitalet og á svipuðum tíma verð ég á Untitled Art Fair í Miami líka í desember, þannig að það er nóg um að vera, segir Helena brosandi. Hún er þó alltaf með ræturnar á Íslandi, er með vinnustofuna sína hér heima og sendir svo verk erlendis.

„Ég fylgi verkunum stundum og ætla til dæmis að fara bæði til Stokkhólms og Miami og ég hlakka svo til, það verður algjör stemning.“

Instagram öflugt myndlistartól

Hún segist upplifa að með tilkomu samfélagsmiðla sé orðið styttra á milli íslensku og erlendu listsenunnar.

„Allur bransinn er svolítið kominn á netið og er að fylgjast með. Ég kynntist mínum galleristum í gegnum Instagram, það birtist verk eftir mig á vefsíðu sem birtir reglulega málverk og í kjölfarið höfðu þeir samband við mig. Þetta var í desember 2019 og ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað scam, segir Helena hlæjandi.

Svo skoðaði ég þetta blessunarlega betur og við erum bara búin að vera að vinna saman síðan þá. Mér líður eins og það sé að opnast fyrir fullt af tækifærum með því að vera sýnilegur á samfélagsmiðlum, ef maður væri ekki með þennan glugga út í heim myndi maður bæði missa af svo miklum innblæstri og straumum en á sama tíma líka það að fólk geti séð verkin manns úti.

Það skiptir máli að vera með þennan vettvang sem er aðgengilegur fyrir hvern sem er í heiminum, fólk þarf ekki að koma hingað til landsins og labba akkúrat inn á sýningu hjá mér akkúrat þegar hún er í gangi. Þannig að Instagram hefur gert ótrúlega góða hluti fyrir mig persónulega og er líka svo öflugur miðill fyrir sjónræna hluti eins og mína myndlist.“

Þó sé algengt að fólk sé handvisst um að málverk Helenu á Instagram séu ljósmyndir.

„Það er fyndið því þetta eru svo litlar myndir sem birtast á skjánum og þá eru sumir alltaf handvissir um að ég sé ljósmyndari, þó að ég passi mig að taka mjög skýrt fram að ég sé málari. Titill sýningarinnar nær svo aftur þangað, alveg eins og alvöru.“

Sannfærandi framsetning á einhverju sem er ekki til

Blaðamaður spyr Helenu Margréti þá hvort hún geri svolítið í því núna að fjarlægjast raunsæinu.

„Mér finnst líka gaman að leika mér með mörkin og ögra raunsæinu. Það er auðvelt að búa til eftirlíkingu af raunverulegum hlutum og þess vegna finnst mér gaman að snúa upp á þá. Til dæmis myndir sem geta ekki verið til í raunveruleikanum og fylgja ekki alveg lögmálinu. 

Eins og brotna vínglasið, það eru sex ólíkar myndir settar saman og ég er búin að eiga við allt. Bunurnar myndu ekki koma fram svona. Mér finnst mjög gaman að búa til sannfærandi heim og sannfærandi framsetningu á einhverju sem er ekki til og getur ekki verið til, það er mjög skemmtilegt.“

Helena málar sjálfa sig gjarnan í verkunum og leikur sér með óþægindastuðulinn.Vísir/Vilhelm

Risastórar sjálfsmyndir í Hong Kong

Helena Margrét notar sjálfa sig gjarnan sem viðfangsefni inn í verkum sínum og segir að það geti stundum verið erfitt að láta persónuleg verk frá sér.

„Í Hong Kong er einn kaupandi sem á tvö verk, hvort um sig 2 x 2 metrar, og eru sjálfsmyndir af mér. Ég í glasi, ég í flösku og ég að bráðna en samt alltaf ég sem er svolítið skrýtið að pæla í en á sama tíma magnað.

Maður er bæði búinn að vinna mikið að einhverju sem er ótrúlega persónulegt. Fyrri hlutinn af sköpunarferlinu einkennist svo mikið að því að maður er bara með sjálfum sér að skapa og byrjar ekkert að hugsa um að verkið gæti endað heima hjá einhverjum. Maður er að búa til þessar myndir fyrir sig og upp úr sér. Þetta eru oft sjálfsmyndir og það er oft svolítið skrýtin tilfinning að hugsa til þess að einhver eigi mynd af mér sem ég gerði út frá mér.“

Hún segir það þó passa vel þar sem listsköpun er yfir höfuð svo persónuleg. 

„Það er ótrúlega persónulegt að einhver eigi verk eftir mann og þá er það kannski bara við hæfi að það sé mynd af manni sjálfum. Þetta er smá partur af manni sem fer upp á veggi hér heima og út í heim. Stundum eru verkin þó það persónuleg að ég held þeim bara fyrir mig og hef þau heima. En þetta er svo aðskilið, ferlið og eftirmálinn. 

Svo er maður búinn að vera í marga marga mánuði með verkin hjá sér í stúdíóinu og svo fara þau og koma ekki aftur. En þetta verður svona hringrás, verkin verða til og fara en svo byrjar maður á nýrri sýningu og svo framvegis.

Það er auðvitað ótrúlega kærkomið og ekki sjálfgefið að geta unnið við þetta, maður þarf líka að vera mjög þakklátur fyrir það að verkin komi ekki aftur.“
Helena Margrét segir að stundum geti verið erfitt að kveðja verkin sín en það sé þó á sama tíma mikil forréttindi. Aðsend

Sýningin Alveg eins og alvöru opnar klukkan 20:00 í kvöld í D sal Hafnarhússins og verður Helena Margrét einnig með númeruð eftirprent af verki í upplagi af 40 til sölu í safnbúðinni. Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.


Tengdar fréttir

Reynir að gera köngulærnar eins girnilegar og hægt er

Listakonan Helena Margrét fann fyrir keppnisskapi í listinni á sínum yngri árum en hún stendur nú fyrir einkasýningu í Ásmundarsal og tekur þátt í sýningum víða um heiminn á næstunni. Blaðamaður heyrði í henni og fékk að heyra nánar frá listinni og lífinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.