Víkingar urðu Íslandsmeistarar í gærkvöld þegar KR og Valur gerðu 2-2 jafntefli. Meistararnir gátu þó ekki fagnað um og of þar sem þeir áttu leik við Breiðablik, Íslandsmeistara síðasta árs, innan við sólahring síðar. Fyrir leik var Arnar svo spurður út í ríg liðanna sem hafa barist á toppi deildarinnar undanfarin þrjú ár.
„Ég fer ekki upp úr rúminu á hverjum degi og hugsa um Breiðablik,“ sagði Arnar í viðtali við Gunnlaug Jónsson og hélt áfram.
„Verð að viðurkenna það að mér finnst rosalega erfitt að átta mig á Blikum í dag, eiga góðar frammistöður inn á milli en hafa tapað óheyrilega mikið af leikjum. Hafa alls tapað tólf leikjum í deild, bikar og Evrópu sem er held ég meira en Víkingur hefur tapað á síðustu þremur árum.“
„Vanalega þegar þú tapar svona mörgum leikjum á einu tímabili þá ertu ekki með rosalega mikið sjálfstraust en einhverra hluta vegna er verið að spinna söguna þannig að liðið lítur út fyrir að vera með bullandi sjálfstraust. Það er hættulegt fyrir mig ef þeir trúa því. Blikar eru með hörkulið og við þurfum að brjóta þá á bak aftur eins og við höfum gert áður í sumar.“
Leiknum lauk með 3-1 sigri Breiðabliks.