Tónlist

GKR boðar endur­komu í öllum skilningi þess orðs

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rapparinn verður með sínu fyrstu tónleika hér á landi síðan árið 2019 um helgina. Þar spilar hann lög af nýrri plötu, þeirri fyrstu síðan 2018.
Rapparinn verður með sínu fyrstu tónleika hér á landi síðan árið 2019 um helgina. Þar spilar hann lög af nýrri plötu, þeirri fyrstu síðan 2018. Viktor Steinar

Rapparinn Gaukur Grétu­son, betur þekktur sem GKR, hyggst snúa aftur til landsins um helgina og troða upp á Iceland Airwa­ves tón­listar­há­tíðinni í Kola­portinu næsta föstu­dags­kvöld. Hann hyggst spila nýtt efni, lög af nýrri plötu sem er væntan­leg snemma á nýju ári.

Rapparinn hefur undan­farin ár búið í Bergen í Noregi og ekki komið fram á slíkum tón­leikum hér á landi síðan árið 2019. Þá eru fimm ár síðan hann gaf síðast út plötu og því um tíma­mót að ræða.  Fyrsta lagið af plötunni, Snertingu við mig, er komið út.

Aldrei verið eins stoltur af eigin efni

„Mig langar að fólk geti upp­lifað nýju lögin mín á sinn eigin hátt og þannig myndað sér sínar eigin skoðanir. Þannig ég vil eigin­lega ekki segja of mikið um inn­blásturinn en þetta er það næsta því sem ég hef komist því að gera tón­list sem ég er stoltur af,“ segir GKR í sam­tali við Vísi.

Hann hefur verið dug­legur að koma fram á tón­leikum í Noregi síðan hann flutti þangað árið 2021. GKR hefur meðal annars gert lag með norska rapparanum Nossan eins og Vísir hefur fjallað um.

„En tónleikarnir núna á Airwaves verða glænýjir. Ég mun flytja nýju lögin mín. Ég spilaði þau á Bylarm tónlistarhátíðinni í Osló og mótttökurnar voru fáránlega góðar. Líklega hef ég aldrei upplifað eins góðar mótttökur hjá tónleikagestum.“

Fíla Norð­mennirnir ís­lensku textana?

„Já! Og þeir syngja með. Ég fæ þá til að segja orðin fyrir lag, til dæmis „Hvað ertu að tala um?“ og svo þegar við­lagið kemur þá ýti ég þeim bara á­fram og þau syngja með,“ segir rapparinn.

„Síðast þegar ég gaf út plötu, Út­rás árið 2018, þá var ég á niður­leið. Það er flókin saga og ég segi hana kannski síðar. En þá varð ég í raun ekki eins metnaðar­fullur og ég hefði viljað vera og skaut sjálfan mig niður. Ég er samt á­nægður með plötuna, þó mér finnist eins og hún hefði getað verið eitt­hvað meira.“

Rapparinn hyggst leyfa hlustendum að meta nýju plötuna á sínum eigin forsendum.

Hét því að spila einn daginn á Airwa­ves

GKR mun koma fram á Airwa­ves há­tíðinni í Kola­portinu klukkan 23:00 á föstu­dags­kvöld. Hann hefur aldrei spilað áður í Kolaportinu, enda var ekki komið svið þangað síðast þegar tónlistarmaðurinn kom fram á hátíðinni.

Ertu spenntur?

„Þetta hefur verið flókið ferli fyrir mig. Þetta eru per­sónu­leg lög og það eru flóknar til­finningar að baki þeim. Þannig að það að segjast vera spenntur væri ein­földun fyrir mér,“ segir rapparinn hlæjandi.

Hann segir að há­tíðin eigi sér­stakan stað í hjarta sínu og rifjar upp þegar hann fór fyrst á tón­listar­há­tíðina í mennta­skóla.

„Það var sturluð upp­lifun og ég hef alltaf elskað þessa há­tíð síðan. Þá lofaði ég líka vinum mínum því sem voru þar með mér að þetta yrði ég þarna einn daginn uppi á sviði. Svo bara gerist það,“ segir rapparinn. Hann spilaði síðast á há­tíðinni árið 2019.

„Ég hugsa að ég hafi átt marga af mínum bestu tón­leikum á Airwa­ves og ég hef ekki komið fram þar í fjögur ár, þannig að þetta verður keyrsla.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.