Þing Norðurlandaráðs hefur staðið yfir í Osló síðustu daga en því lauk í dag með því að Ísland tók við formennsku í ráðinu.
Formennskuáætlun Íslands fyrir Norðurlandaráð var á sama tíma kynnt en yfirskrift hennar er Friður og öryggi á norðurslóðum. Þar kemur fram að með orðunum „friður og öryggi“ í yfirskrift formennskuáætlunarinnar sé átt við „þörfina á að tryggja öryggi Norðurlanda og bandalagsþjóða þeirra á norðurslóðum en jafnframt nauðsyn þess að draga úr spennu á svæðinu og leggja aukna áherslu á friðsamlegar lausnir. Þörf er á nýrri framtíðarsýn í öryggismálum á norðurslóðum. Með orðinu „öryggi“ er þó einnig átt við aðra þætti sem tengjast velferð og framtíð Norðurlanda og sérstaklega íbúa á norðurslóðum,“ segir í áætluninni.
Næsta Norðurlandaráðsþing verður haldið að ári í Reykjavík.
Þingmennirnir Bryndís Haraldsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir, Orri Páll Jóhannsson og Teitur Björn Einarsson sóttu þing Norðurlandaráðs í Osló, auk Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis, en norrænir þingforsetar halda jafnan sinn árlega fund í tengslum við þingið.
Auk hinna 87 fulltrúa sem sitja í Norðurlandaráði tóku fjölmargir norrænir ráðherrar þátt í þinginu. Frá Íslandi komu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.