Sjötta heimsþingi leiðtogakvenna lauk í Hörpu nú síðdegis. Á þinginu voru kynntar niðurstöður rannsóknar á viðhorfum almennings í fjölda ríkja til kvenna í leiðtogastörfum, eða Reykjavík Index. Michelle Harrison forstjóri Kantar í Bretlandi sem vinnur rannsóknina segir sláandi mun á viðhorfunum á Norðurlöndunum annars vegar og í G7 ríkjunum hins vegar.

„Þannig að þetta er þversagnarkennd niðurstaða. Í G7 ríkjunum fer ástandið hnignandi. Þar fara fordómar gagnvart konum í leiðtogastörfum vaxandi," segir Harrison.
Af hundrað stigum mögulegum trónir Ísland efst með 89 stig og hin Norðurlöndin eru ekki langt undan. En lægst mælast Ítalía, Þýskaland og Bandaríkin með 66 til 68 stig. Harrison segir fordómana sérstaklega vera að aukast á meðal ungs fólks sem væri mikil vonbrigði.

„Ungt fólk í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada og raunar þvert yfir G7 ríkin styðja jafnrétti kynjanna til leiðtogastarfa minna en foreldrar þeirra. Sláandi staðreynd," segir Harrison.
Skýringanna mætti leita á nokkrum stöðum eins og efnahagsþrengingum, vexti populisma og hvernig samfélagsmiðlar miðuðu skilaboðum til ungs fólks. Ríki heims gætu margt lært af þróun mála á Íslandi, þar sem mikið hefði áunnist en konur teldu samt hægt að gera meira.
„Það sem við lærum að þessu er að sagan mun ekki sjá um þetta af sjálfri sér. Við verðum að vinna að þessum málum á hverjum degi. Og íslenskar konur veita okkur innblástur í þessum efnum," segir Harrison.

Hanna Birna Kristjánsdóttir fyrrverandi borgarstjóri og ráðherra sem var aðaldriffjöðrin í stofnun heimsþingsins, sem að þessu sinni var haldið undir kjörorðunum aðgerðir og lausnir, er ánægð með þingið.
„Það er búið að ganga ótrúlega vel að eiga þetta samtal við 500 konur hér. Við lögðum áherslu á aðgerðir og lausnir og mér finnst það vera að skila sér í því að við erum komin miklu lengra í samtalinu en bara í gær. Og það er mikil ánægja hjá gestunum að við séum raunverulega að nálgast það þannig og bjóða upp á leiðir og lausnir sem hafa virkað hér á landi og munu vonandi virka annars staðar,” segir Hanna Birna.
Viðtalið við Michelle Harrison má sjá í heild sinni á spilaranum hér fyrir neðan: