Lífið

Myndir af Frið­riki með Genovevu á Spáni vekja at­hygli

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Friðrik hefur ekki tjáð sig um málið.
Friðrik hefur ekki tjáð sig um málið. EPA-EFE/IDA MARIE ODGAARD

Erlendir slúðurmiðlar hafa birt myndir þar sem fullyrt er að megi sjá Friðrik krónprins af Danmörku ganga götur Madríd borgar í för með mexíkönsku athafnakonunni Genovevu Casanova. Þá virðist hann einnig sjást yfirgefa hús hennar eftir fataskipti.

Bæði hafa þvertekið fyrir að nokkuð hafi átt sér stað á milli þeirra. Slúðurblöð á Spáni hafa hins vegar ekki hætt að fjalla um málið og hafa nú birt myndir af þeim Friðriki og Genovevu saman.

Eins og fram hefur komið hafa spænskir miðlar haldið því fram að Friðrik og Genoveva hafi farið saman á listasafn í Madríd. Þau hafi þar eytt nótt saman.

Á sama tíma hafa danskir miðlar greint frá því að María krónprinsessa hafi á sama tíma verið í New York. Þetta hafi verið í lok október fyrir mánuði síðan. Ferð Maríu hafi verið formleg og tilkynnt sem slík en ekki ferðalag Friðriks.

Spænska slúðurblaðið Lecturas hefur fullyrt að þau Friðrik og Genoveva hafi hvort um sig mætt í íbúðarhúsnæði þar sem hún býr í sitthvoru lagi um kvöldmatarleyti. Þau hafi síðan yfirgefið húsið saman og hafi þá verið búin að skipta um föt.

Nú hafa birst myndir af prinsinum þar sem má sjá hann á gangi í bláum jakka og brúnum buxum. Fullyrða spænsku blöðin að þar sé prinsinn á ferðinni, á leið heim til Genovevu. Á annarri mynd má sjá hann með Genovevu í öðrum fötum og segja spænsku blöðin þetta vera sama kvöldið.

Genoveva hefur sjálf sent frá sér tilkynningu vegna málsins. Hún hafnar staðhæfingum um að hún eigi í sambandi við Friðrik. Þá gagnrýnir hún fréttaflutning spænskra slúðurmiðla og segir hann skaðlegan, auk þess sem hann brengli raunveruleikann.

Friðrik og María hafa verið gift í nítján ár. Þau kynntust í heimalandi Maríu í Ástralíu árið 2000 og vakti ráðahagurinn heimsathygli á sínum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.