Í tilefni af þessum tímamótum býður Mengi til afmælisveislu næstkomandi föstudag 15. desember frá klukkan 18:00-21:00.
„Þar geta gestir notið léttra veitinga og hlýtt á tíu stutt og sérvalin atriði í boði hússins og
listamannanna. Undanfarinn áratug hefur Mengi haldið úti gríðarlega mikilvægri þjónustu við tónlistarfólk og hlustendur með stöðugri, spennandi tónleikadagskrá allan ársins hring í hjarta Reykjavíkur,“ segir í fréttatilkynningu.
Þar kemur einnig fram að fjöldi viðburða í Mengi frá upphafi nálgist ört tvö þúsundin og hefur ný tónlist sem spannar allar tónlistarstefnur skipað þar stærstan sess. Má þar nefna tónverk í mótun, frjó samstörf og sjaldheyrð verk.
„Í Mengi er lagt upp úr því að efla samtal á milli ólíkra kynslóða tónlistarmanna og fagfólks á sviði tónlistar og tónlistartengdrar starfsemi en þannig hefur staðurinn byggt upp öflugt, alþjóðlegt tengslanet sem skapandi tónlistarfólk hefur getað nýtt sér til framdráttar.“
Eftirfarandi aðilar koma fram á viðburðinum:
Katie Buckley, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Brynjar Daðason, John McCowen, Guðmundur Ari Arnalds, Una Sveinbjarnardóttir, Eiríkur Orri Ólafsson, Kristín Anna Valtýsdóttir, Jófríður Ákadóttir, Arnljótur Sigurðsson og Örlygur Steinar Arnalds.