Eftir að tæknileg vandamál urðu til þess að ekki var hægt að afkóða tilnefningarnar á dögunum tilkynnti kjörstjórn Þjóðkirkjunnar að hún liti svo á að ferlið við kosningu biskups væri enn í gangi. Þess vegna væri hægt að endurtaka tilnefningarnar frá og með deginum í dag.
Kjörstjórn ákvað þannig að starfsreglur um kosningu biskups, þar sem kveðið er á um að auglýsa þurfi tilnefningaferlið með viku fyrirvara, ættu ekki við.
Ákvörðunin hefur einnig í för með sér að tímalengd milli tilnefninga og kosninga raskast og þar sem kveðið er á um hana í fyrrnefndum starfsreglum sendi kjörstjórn erindi á forsætisráðunefnd Kirkjuþings, þar sem óskað var samþykkis nefndarinnar.
Í tilkynningu á vefnum kirkjan.is segir að samþykki forsætisnefndar hafi verið forsenda þess að framhaldstilnefningin næði tilgangi sínum.
„Þar sem formlegt svar forsætisnefndar kirkjuþings hefur ekki borist kjörstjórn, á hún ekki annan kost en að hætta við fyrirhugaðar endurteknar tilnefningar.“
Þá segir að kjörstjórn muni hittast á næstu dögum og taka ákvörðun um framhald málsins.