Suður-Afríka tapaði gegn Nígeríu í undanúrslitum eftir vítakeppni á meðan Kongó féll úr leik eftir tap gegn heimamönnum frá Fílabeinsströndinni.
Fyrri hálfleikurinn í dag var fremur tíðindalítill. Lið Kongó var líklegri aðilinn til að skora en fór illa með færi og þá sérstaklega í síðari hálfleiknum þegar liðið fékk ágætis færi til að setja sigurmarkið.
Það tókst hins vegar ekki og staðan markalaus eftir venjulegan leiktíma. Ekki er gripið til framlengingar í leik um 3. sætið á Afríkumótinu heldur farið beint í vítaspyrnukeppni.
Vítaspyrnukeppnin var heldur betur dramatísk. Suður-Afríka byrjaði á að misnota fyrstu spyrnu sína þegar Teboho Mokoena skaut í stöng. Liðin skoruðu síðan úr öllum spyrnum sínum þar til komið var að síðustu spyrnu Kongó. Han atók Chancel Mbemba en Ronwen Williams í marki Suður-Afríku varði.
Því þurfti bráðabana til að skera úr um úrslitin. Bæði lið skoruðu í fyrstu umferðinni og Suður-Afríka komst í 6-5 með marki Siyanda Xulu í annari umferð bráðabanans. Þá var komið að Kongó en aftur varði Williams í marki Suður-Afríka sem þar með tryggði sér bronsverðlaunin.
Þetta er í fjórða sinn sem Suður-Afríka vinnur til verðlauna á Afríkumótinu en liðið vann gull árið 1996, silfur árið 1998 og brons árið 2000.