Steingrímsfjarðarheiði var lokað eftir hádeg í gær vegna veðurs og er hún enn lokuð. Þá þurfti Icelandair að seinka flugi sínu frá Reykjavíkurflugvelli til Ísafjarðar í gær vegna veðursins.
Það skaut skipuleggjendum tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður skelk í bringu þar sem von var á nýju holli af tónlistarmönnum með vélinni og fljúga átti flytjendum föstudagskvöldsins aftur suður. Allt gekk þó upp að lokum.

„Þetta var kannski upphaflega uppleggið að þessari hátíð að búa til tónlistarhátíð að hávetri á Ísafirði. Köld skemma, öllum líður jafn illa einhvern vegin. Það var uppleggið þannig að þetta var allt on brand,“ sagði Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Mikið fjör hafi verið á opnunarkvöldinu í gær, þar sem Lúðrasveit tónlistarskólans, Mugison, Emmsjé Gauti og GDRN spiluðu meðal annars.
„Það var pakkað í skemmunni okkar frá fyrsta tóni Lúðrasveitar tónlistarskólans og þar til Celebs kláruðu um kvöldið,“ sagði Kristján.
Í gærkvöldi var svo önnur eins veisla í boði, þar sem Birnir, Hipsumhaps, Helgi Björns, Of Monsters and Men, Bogomil Font, Ham og Inspektor Spacetime skemmtu lýðnum.
„Ég hef eiginlega bara áhyggjur af því að maður tími ekki að fara að pissa eða eitthvað milli atriða, fá sér að borða eða drekka af því að maður vill helst ekki missa af neinu,“ sagði Kristján Freyr um tónlistarveisluna.

Fréttir af því að systkinahátíðirnar Fiskidagurinn mikli og Lunga leggi upp laupana séu sorglegar. Hann þakkar stuðningsfólki allt, enda sé ekki sjálfgefið að hátíð sem þessi lifi tvo áratugi.
„Ég ætla bara að tileinka þessum hinum hátíðum þessa Aldrei fór ég suður í ár. Ég óska þeim alls að sólu í framtíðinni.“