Hún er ekki vorleg myndin sem Vegagerðin teiknar upp af á Norðurlandi í dag en vegir um Öxnadalsheiði, Víkurskarð, Ljósavatnsskarð, Þverárfjall, Dalsmynni, Vatnsskarð og Ólafsfjarðarmúla eru allir lokaðir vegna veðurs auk Siglufjarðarvegs. Svipaða sögu er að segja á Norðausturlandi og Austurlandi þar sem margir helstu vegkaflar eru ýmist lokaðir eða illfærir.
Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetur fólk til að bíða með ferðalög milli landshluta fyrir norðan í ljósi þessa.

Allir kátir þar til bylurinn skall á
„Við áttum mjög flottan morgun en svo skall veðrið á eins og við bjuggust svo sem við. Við vorum að vona að þetta yrði innan marka en það var það ekki í þetta skiptið,“ segir Jónas Stefánsson, svæðisstjóri í Hlíðarfjalli í samtali við fréttastofu.
Skíðasvæðinu var lokað upp úr hádegi. Mikill fjöldi hafði þá verið í fjallinu frá því að það opnaði klukkan 9 en venju samkvæmt er Akureyri og Hlíðarfjall vinsæll áfangastaður yfir páskahelgina.
„Það er búin að vera hörkutraffík og allir kátir og glaðir.“ Þangað til að norðan snjóbylur mætti á svæðið og allt skyggni hvarf í skyndi.

„Eins og það var nú bjart og fallegt í morgun, svona er bara íslenska veðrið stundum,“ bætir Jónas við en hann er bjartsýnn á morgundaginn þar sem gert er ráð fyrir að veðrið komi til með að róast í kvöld.
Plötusnúðar og tónlistarmenn hafa glatt gesti Hlíðarfjalls um helgina var Rúnar Eff mættur á svæðið til að spila einmitt um það leyti sem veðrið skall á. Starfsfólk og gestir létu það ekki á sig fá og fór viðburðurinn fram á skíðahótelinu.
„Það moksnjóar hjá okkur og við fögnum bara öllum snjó sem fáum. Það verður bara örugglega hægt að skíða hérna í gourmet færi fram í lokun í lok apríl,“ segir Jónas svæðisstjóri að lokum.

Sumir bílar keyrðir niður
Björgunarsveitir í Húnavatnssýslum og Skagafirði hafa staðið í ströngu í dag við að aðstoða ferðalanga yfir og niður af Vatnsskarði og út Langadal, að sögn Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Mikil hálka er sögð efst í Bólstaðahlíðarbrekku og hafa bílar fokið þar til.
Í einhverjum tilvikum hafa bílstjórar ekki treyst sér til að keyra áfram og hefur björgunarfólk keyrt suma bíla niður, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg. Bílum hefur verið safnað saman í hópakstur og þeim fylgt niður beggja vegna Vatnsskarðs.

Björgunarsveitin á Dalvík aðstoðaði fyrr í dag fólk sem var á ferð um Árskógsstrandarveg. Talsverður fjöldi ökumanna var í vandræðum þar og eitthvert tjón varð á ökutækjum þegar þau rákust saman.
Aðgerðum þar er nú að mestu lokið en enn er verið að fylgja ferðalöngum niður af Vatnsskarði bæði austan og vestan megin, segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

