Frá þessu er greint í tilkynningu á vef landlæknisembættisins.
Þar segir að kíghósti greinist af og til á Íslandi og gjarnan í hrinum á þriggja til fimm ára fresti.
Kíghósti sé alvarleg öndunarfærasýking hjá börnum, einkum á fyrstu mánuðum ævinnar en hjá unglingum og fullornum einkennist sjúkdómurinn af langvarandi og þrálátum hósta og kvefeinkennum.
Ungum börnum á fyrstu sex mánuðum ævinnar sé sérlega hætt við alvarlegum afleiðingum kíghósta, meðal annars slæmum hóstaköstum og öndunarstoppi. Sjúkdómurinn geti dregið börn til dauða.
„Smit berst á milli manna með úða frá öndunarfærum. Yfirleitt líða um 2-3 vikur frá smiti þar til einkenni koma fram. Einkennin eru í fyrstu vægt kvef, síðan vaxandi hósti, slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar. Eftir um það bil tvær vikur færast einkennin í vöxt með áköfum hóstaköstum og fylgir þeim einkennandi soghljóð við innöndun. Önnur einkenni eru hnerri, nefrennsli og hiti. Einkenni sjúkdómsins geta verið til staðar í allt að 10 vikur. Sjúkdóminn má staðfesta með sýnatöku úr nefi/nefkoki og leit að erfðaefni bakteríunnar,“ segir á vefnum.
Hér á landi séu börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett 4 og 14 ára gömul. Bóluefnið verndi ekki lengur en í tíu ár og því sé möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Barnshafandi konum sé boðin bólusetning til að verja barnið frá því að smitast fyrstu mánuði ævinnar.