Héraðsdómur sýknaði þau Þórð og Guðrúnu af 2,3 milljarða króna skaðabótakröfum Lyfjablóms sumarið 2022. Lyfjablóm áfrýjaði dómnum til Landsréttar.
Lyfjablóm ehf. hét áður Björn Hallgrímsson ehf. Eigendur Lyfjablóms voru börn Björns Hallgrímssonar og var sonur hans Kristinn í fyrirsvari fyrir félagið. Sólveig er ekkja Kristins og situr í óskiptu búi eftir andlát hans árið 2015.
Félagið Gnúpur er miðlægt í málinu, en um er að ræða fjárfestingafélag sem var áberandi árin fyrir hrun. Þórður Már gegndi stöðu forstjóra félagsins, en Lyfjablóm átti tæplega helmingshlut í því.
Aðalsteinn E. Jónasson, dómari við Landsrétt, starfaði fyrir Gnúp. Hann var framkvæmdastjóri lögfræðisviðs félagsins. Á meðal gagna málsins er skýrsla sem Aðalsteinn gaf fyrir héraðsdómi árið 2022, en þá var hann orðinn dómari við Landsrétt.
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómarar við réttinn væru vanhæfir vegna þess að Aðalsteinn samstarfsmaður þeirra væri vitni í málinu. Málinu var skotið til Hæstaréttar sem komst að sömu niðurstöðu.
Þótt ekki væri augljóst að við úrlausn málsins muni reyna á það að dómarar við Landsrétt þurfi að leggja mat á sönnunargildi og trúverðugleika framburðar Aðalsteins þá væri ekki hægt að útiloka það. Það að Aðalsteinn væri vitni í málinu væri til þess fallið að draga mætti óhlutdrægni annarra dómara við Landsrétt með réttu í efa.