Hér erum við að tala um Þóru Ósk Guðjónsdóttur sjúkraliða, sem er alltaf brosandi og svo jákvæð þrátt fyrir erfiðleika vegna fötlunar sinnar, sem gerir ástand hennar alltaf verra og verra. Hún gengur við göngugrind en þarf alltaf að nota hjólastól meira og meira.
Og það er alveg magnað að sjá hvað þetta virkar flott hjá Þóru á bílnum. Hjólastólinn kemur bara til hennar sjálfkrafa með aðstoð ákveðins búnaðar enda fer brosið varla af Þóru því hún er svo ánægð með nýju græjuna.
„Já, ég er með svona „tengdamömmubox “til að geyma hjólastólinn minn þannig að nú þarf ég ekkert að hafa áhyggjur af því að hafa stólinn í skottinu eða hafa einhvern með mér til að taka stólinn fyrir mig, þetta kemur bara allt svona. Þetta er ótrúlega flott og sniðugt,” segir Þóra Ósk.

En hvað er það sem amar að hjá Þóru varðandi hennar fötlun?
„Ég er sem sagt með einhvern taugahrörnunarsjúkdóm en það er svo einkennilegt að það finnst ekkert af mér. Ég er búin að fara í allskonar blóðprufur, skanna á heila og mænu hvort ég sé með MS þannig að ég er örugglega ekkert fötluð,”, segir hún og hlær.

Þóra Ósk á þrjú börn með manni sínum Hlöðveri Þorsteinssyni og una þau hag sínum vel á Eyrarbakka. Hún er í sjúkraþjálfun nokkrum sinnum í viku og í sérstökum þrýstingsbuxum til að auka blóðflæði niður í fætur svo eitthvað sé nefnt.
Og þú ert ótrúlega jákvæð þrátt fyrir allt?
„Heyrðu já, það hefur hjálpað mér svo rosalega mikið hvernig mér líður að það er bara ekki í boði að draga sængina upp fyrir haus og bara aumingja ég, það er ekki í boði,” segir Þóra Ósk ákveðin.
Og Þóra segir að hjólastólinn í „tengdamömmuboxinu breyti öllu fyrir sig.
„Já, að vera með hjólastólinn og þurfa ekkert að hugsa, bara að fara eða að fara í búðina og ekkert að spá í þessu, það er alveg geggjað,” segir Þóra Ósk, jákvæð og hress Eyrbekkingur þrátt fyrir erfið veikindi en hún lætur ekkert stoppa sig.
