Í nýrri ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2023 er kastljósinu beint að ofbeldismönnum þeirra sem leita til samtakanna. Frá upphafi hefur 11.101 leitað sér aðstoðar hjá Stígamótum vegna kynferðisofbeldis eða kynbundins ofbeldis en ofbeldismennirnir teljast vera 15.673, fleiri en þeir sem leitað hafa aðstoðar.
„Auðvitað eru einhverjir oftaldir en þetta segir okkur það að það eru fleiri gerendur en þolendur, það er að segja að þolendur verða hugsanlega fyrir ofbeldi af hendi fleiri en eins geranda,“ segir Drífa Snædal, talskona Stígamóta.
Í skýrslunni eru einkenni ofbeldismanna dregin fram.
„Það er líklegast að þetta séu íslenskir karlmenn, það er líklegast að verknaðurinn sé framinn inni á heimili ofbeldismannanna, að þeir hafi ekki beitt hótunum eða þvingunum heldur er líklegra að þeir hafi groomað, eða byggt upp tilfinningaleg tengsl í aðdraganda brotanna. Það er líklegast að ofbeldismennirnir séu á aldrinum 18-39 ára og flestir brotaþolar sem koma hingað verða fyrir ofbeldi áður en þau verða átján ára.“
Fram kemur í skýrslunni að körlum, sem sóttu til Stígamóta hafi fjölgað milli ára, úr 7 prósentum í 11,4.
„Það er alltaf rosalega sveiflukennt ár frá ári hversu margir karlmenn leita í hlutfalli við konur. Þetta hefur verið á bilinu 7-14 prósent síðustu áratugi. Við sjáum það að ef það er mikil umræða um brot gegn sérstaklega drengjum í samfélaginu, eins og var á síðasta ári, þá skilar það sér í fleiri karlmönnum hingað í ráðgjöf.“
Á síðasta ári komu alls 835 í viðtöl, þar af 376 í fyrsta sinn.
„Biðlistinn styttist milli ára og við höfum verið í stöðugri baráttu við þennan biðlista síðustu þrjú, fjögur árin. Því miður er hann ennþá en hann hefur styst milli ára og það er bara fyrir tilstuðlan almennings, sem hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar til þess að við getum ráðið inn fleira fólk og stytt biðlistann,“ segir Drífa.
„Það er mjög ánægjulegt að biðlistinn sé að styttast. Það þýðir einfaldlega að fólk sem er að koma hingað í fyrsta sinn þarf að bíða skemur eftir fyrsta viðtali. Við förum hins vegar mjög varlega í einhverjar yfirlýsingar um að ofbeldi sé að minnka. Líklegri skýring er að það kemur kúfur eftir MeToo-bylgjuna og í Covid. Við höfum verið að vinna niður þennan kúf á síðustu árum.“