Arsenal tyllti sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar með 0-1 sigri á Manchester United á Old Trafford í gær.
Arsenal er einu stigi á undan Manchester City sem á tvo leiki eftir. Næsti leikur City er gegn Tottenham á útivelli á morgun og Arsenal verður að vonast eftir að Spurs taki stig af meisturunum.
Þrátt fyrir að grunnt sé á því góða milli Arsenal og Tottenham segir Kai Havertz, leikmaður Skyttanna, að hann muni styðja Spurs á morgun.
„Ég verð mesti stuðningsmaður Tottenham í sögunni,“ sagði Havertz eftir leikinn gegn United í gær.
„Við verðum það allir! Við vonum það besta,“ bætti Þjóðverjinn við. Hann hefur spilað vel að undanförnu og lagði upp markið gegn United fyrir Leandro Trossard.
Tottenham er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en gæti náð 4. sætinu með hagstæðum úrslitum í síðustu leikjunum.