„Ég held að við höfum verið mjög svekktar með síðasta leik og við vorum staðráðnar í að sýna hvað í okkur býr og við komum sterkar inn í þennan leik og fengum þrjú stig,“ sagði Ísabella eftir leik.
Fyrri hálfleikur var afar tíðindalítill og bæði lið sköpuðu sér lítið af færum. Valur var þó einu marki yfir í hálfleik.
„Ég held að við höfum spilað töluvert hraðar í síðari hálfleik. Þetta var mjög hægt í fyrri hálfleik og við vorum að taka margar snertingar og áttum mikið af lélegum sendingum. Við komum af krafti inn í síðari hálfleikinn og spiluðum miklu betur saman.“
Ísabella Sara fór á kostum í dag og gerði þrennu. Hún var einnig mjög nálægt því að gera fernu en hún átti skot í stöngina í uppbótartíma.
„Mér fannst ég eiga slæman fyrri hálfleik. Mér finnst ég ekki búin að vera upp á mitt besta og ég vildi koma mínu fram í seinni hálfleik og það heppnaðist.“
Aðspurð hvaða mark stóð upp úr sagði hún að það hafi verið þriðja markið þar sem hún tók boltann á loftið og þrumaði honum út við stöng.
„Þriðja markið, ég verð að segja það.“
En var svekkjandi að skjóta í stöngina í uppbótartíma og skora ekki fjórða markið?
„Já já, en er ekki best að vera með þrennu. Það lítur betur út,“ sagði Ísabella sátt með þrennuna að lokum.