Úlfur skoraði fimm mörk í tólf leikjum fyrir FH í Bestu deildinni í sumar en líkt og á síðasta ári þurfti hann að kveðja Kaplakrikann löngu fyrir lok tímabils til að hefja nýtt skólaár.
Fyrsti leikur Duke á nýju tímabil var í Kaliforníu í gær þar sem liðið mætti San Diego og gerðu liðin 2-2 jafntefli.
San Diego komst yfir í leiknum en Úlfur lagði upp jöfnunarmark Duke áður en hann skoraði svo seinna mark liðsins með glæsilegu þrumuskoti, sem sjá má hér að neðan.
WOW WOLFIE WOW 🥶🥶🥶@theACC @SCTopTen pic.twitter.com/rIkkoEOJAf
— Duke Men's Soccer (@DukeMSOC) August 23, 2024
Úlfur, sem er 21 árs gamall, hefur á síðustu tveimur árum skorað alls 12 mörk í 29 leikjum í Bestu deildinni fyrir FH.
Eftir brotthvarf hans um mánaðamótin hefur FH aðeins fengið eitt stig úr síðustu þremur leikjum sínum, og það kom með dramatísku jöfnunarmarki gegn Val á mánudagskvöld. Áður hafði liðið tapað gegn KR og Víkingi.