Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna rannsóknar á líkamsárásinni alvarlegu.
Þrjú orðið fyrir hnífsstungu
„Hún er umfangsmikil og hefur verið í algjörum forgangi hjá embættinu frá því að málið kom upp,“ segir í tilkynningu.
Lögregla hafi snemma haft nokkuð skýra sýn af atburðarásinni á vettvangi og fljótlega handtekið sextán ára pilt í tengslum við málið. Hann er grunaður um að hafa stungið þrjú ungmenni með með hnífi. Þau særðu, tvær stúlkur og einn piltur, eru öll á svipuðu reki og árásarmaðurinn.

„Hann er íslenskur og báðar stúlkurnar sömuleiðis, en pilturinn sem varð fyrir árásinni er af erlendu bergi brotinn. Önnur stúlknanna slasaðist mjög alvarlega og er enn í lífshættu.“
Fréttastofa ræddi í gær við föður palestínsks pilts sem hlaut stungusár í árásinni. Sá óttaðist um líf sonar síns.
Fjöldi vitna að árásinni
Samkvæmt heimildum fréttastofu voru þau þrjú sem urðu fyrir hnífsstungum komin inn í bíl í Skúlagötu þegar hinn grunaða bar að garði. Braut hann rúðu í bílnum og lagði til þriggja í bílnum. Fjölmenni var í miðborginni þegar árásin átti sér stað enda flugeldasýningu Menningarnætur nýlokið.

„Margir voru því í nálægð við vettvanginn þegar lögreglu og sjúkralið bar að og ber fjöldi þeirra sem hafa verið kallaðir til skýrslutöku vitni um það. Í rannsóknum lögreglu er reynt að varpa ljósi á alla þætti máls, m.a. um frekari aðdraganda atvika og hugsanleg tengsl málsaðila. Það er hefðbundið verklag og á við um þetta mál sem önnur, en ekki er tímabært að upplýsa nánar um málsatvik.“
Veistu meira um málið? Áttu myndefni af svæðinu? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is.