X, sem áður hét Twitter, hefur ekki átt opinberan fulltrúa í Brasilíu frá því að fyrrverandi fulltrúi fyrirtækisins hætti fyrr í þessum mánuði. Alexander de Moraes, forseti hæstaréttar Brasilíu, gaf X frest fram á gærkvöldið til þess að tilnefna fulltrúa vegna rannsóknar á miðlinum í tengslum við upplýsingafals og hatursáróður.
De Moraes gaf út tilskipun í dag um að lokað yrði á X í Brasilíu þar til fyrirtækið verður við tilskipun hans um að tilnefna fulltrúa í landinu og greiðir dagsektir sem því voru gerðar. AP-fréttastofan segir að það byggi á lögum sem kveða á um að erlend fyrirtæki verði að hafa löglegan fulltrúa í landinu sem hægt sé að láta vita af dómsmálum sem koma upp og varða fyrirtækin.
Elon Musk, eigandi X, hefur sakað de Moraes um að brjóta lög og að reyna að ritskoða pólitíska andstæðinga hans. Hann birti meðal annars tölvuteiknaða mynd af dómaranum á bak við lás og slá á X-reikningi sínum í vikunni.
Deilan hófst með því að brasilíski dómarinn skipaði X að loka á tiltekna notendur sem voru til rannsóknar fyrir að dreifa upplýsingafalsi og ala á hatri. Musk brást við með því að loka skrifstofum X í Brasilíu og aflétta banni af notendum sem höfðu verið settir út af sakramentinu.
AP segir að meirihluti hæstaréttar í Brasilíu standi með de Moraes. Stuðningsmenn hans segja að hann hafi gripið til nauðsynlegra varna fyrir brasilískt lýðræði sem sé ógnað um þessar mundir. Á meðal þeirra sem dómarinn skipaði X að banna voru ýmsir þingmenn flokks Jairs Bolsonaro, fyrrverandi forseta. Stuðningsmenn hans gerðu árás á brasilíska þinghúsið eftir að hann tapaði forsetakosningum í janúar í fyrra.