Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu. Hann segir að rannsókn á málinu miði vel.
Grímur segir að nokkurt magn myndefnis hafi borist lögreglunni, en óskað var eftir myndefni frá vegfarendum sem óku um Krýsuvíkurveg, á milli Vallahverfis í Hafnarfirði og Vigdísarvallavegar, á milli klukkan 13 og 18 á sunnudaginn. Hann segir myndefnið sem hafi borist fyrst og fremst vera úr bílum. Unnið sé að því að fara yfir efnið.
„Rannsókninni miðar vel og er í eðlilegum farvegi,“ segir Grímur.
RÚV greinir frá því í dag að faðir stúlkunnar, sem er í haldi grunaður um að hafa banað dóttur sinni, hafi verið metinn sakhæfur samkvæmt bráðabirgðageðmati. Aðspurður segir Grímur að hann geti ekki tjáð sig um það að svo stöddu.
Lögregla yfirheyrði föðurinn síðast á miðvikudagskvöld en hann tilkynnti lögreglu sjálfur um málið á sunnudaginn.