Saka fór meiddur af velli í fyrri hálfleik í stórsigri Arsenal gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni stuttu fyrir jól. Hann sást yfirgefa völlinn á hækjum og óttuðust því margir stuðningsmenn Arsenal að þessi mikilvægi leikmaður liðsins yrði lengi frá keppni.
Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, sagði á dögunum að Saka yrði líklega frá í „margar, margar vikur,“ og nú hefur hann staðfest það.
„Hann fór í aðgerð,“ sagði Arteta eftir 1-0 sigur Arsenal gegn nýliðum Ipswich í gær. „Það gekk allt vel, en því miður verður hann frá í margar, margar vikur.“
„Ég sagði margar vikur þannig að ég held að hann verði frá í meira en tvo mánuði. Ég veit ekki nákvæmlega hversu mikið lengur.“
„Við sjáum til. Það er erfitt að segja til um það,“ bætti Arteta við.
Saka hefur verið lykilmaður í liði Arsenal undanfarin ár og tímabilið sem nú er um það bil hálfnað er þar engin undantekning. Vængmaðurinn hefur skorað fimm mörk og lagt upp önnur tíu fyrir liðsfélaga sína í 16 deildarleikjum.