Fótbolti

Pep kastar inn hvíta hand­klæðinu og segir liðið þurfa hjálp

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
„Hjálp!“
„Hjálp!“ Carl Recine/Getty Images

Pep Guardiola, þjálfari Englandsmeistara Manchester City, er búinn að gefast upp á því að reyna að verja titilinn.

Spánverjinn hélt upp á sinn fimmhundruðasta leik sem knattspyrnustjóri City með 2-0 útisigri gegn nýliðum Leicester í dag. Hins vegar er óhætt að segja að Pep og lærisveinar hans hafi haft litlu að fagna undanfarið, en þetta var aðeins annar sigur liðsins í síðustu tíu deildarleikjum. Liðið situr í fimmta sæti með 31 stig, 14 stigum á eftir toppliði Liverpool.

„Við erum langt frá því að vinna deildina,“ sagði Pep eftir leikinn í dag. „Við erum búnir að sætta okkur við að við eigum ekki möguleika, en það eru aðrir hlutir sem við getum verið að keppast um. FA-bikarinn, Meistaradeildarsæti, og að vinna leiki hjálpar klárlega.“

Þá segir Pep að stærsta ástæðan fyrir vandræðum liðsins þessa dagana séu meiðsli leikmanna. Nú þegar félagsskiptaglugginn er við það að opna þurfi liðið hjálp frá stjórn félagsins.

„Það eru nokkrar stöður þar sem við þurfum að fá hjálp,“ sagði Pep.

„Þegar við erum allir saman erum við liðið sem við eigum að vera, en þegar mikilvægir leikmenn eru frá vegna meiðsla í margar vikur eða mánuði er þetta ótrúlega erfitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×