Sport

Littler yngsti heims­meistari sögunnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Heimsmeistari.
Heimsmeistari. James Fearn/Getty Images

Enska undrabarnið, hinn 17 ára Luke Littler, er heimsmeistari í pílukasti í fyrsta sinn eftir öruggan sigur gegn þrefalda heimsmeistaranum Michael van Gerwen í Ally Pally í kvöld.

Viðureignin var í beinni útsendingu á Vodafone Sport og hófst klukkan 20. Beina textalýsingu frá leiknum má sjá hér að neðan.

Littler, sem er aðeins 17 ára, var í úrslitaleiknum annað árið í röð eftir að hafa tapað fyrir Luke Humphries fyrir ári. Van Gerwen er þrefaldur heimsmeistari en hann vann titilinn árin 2014, 2017 og 2019.

Þrátt fyrir að vera tveir af bestu pílukösturum heims virtust þeir félagarnir vera nokkuð stressaðir í upphafi leiks. Meðaltal beggja var undir 90 og fátt um fína drætti í fyrsta setti. 

Littler hélt þó ró sinni í útskotunum, eitthvað sem Van Gerwen tókst ekki, og sá fyrrnefndi kom sér yfir með 3-1 sigri í fyrsta setti.

Littler hafði svo mikla yfirburði í öðru setti þar sem hann vann alla þrjá leggina og kom sér í 2-0. Van Gerwen gekk því hugsi út af sviðinu í smá pásu, sem hann þurfti klárlega á að halda til að reyna að rétta sig af.

Pásan gerði þó ekki mikið fyrir þrefalda heimsmeistarann því eftir hlé var meira af því sama. Littler virtist ekki geta klikkað á útskoti, en í þau fáu skipti sem Van Gerwen fékk tækifæri til að klára legg klikkaði hann.

Littler kláraði þriðja settið 3-1 og setti svo tóninn í fjórða settinu með því að taka út 70 með einni pílu í búllið og annarri í tvöfaldan tíu. Van Gerwen náði að stela einum legg í settinu, en klikkaði svo heldur betur á útskoti í fjórða legg og Littler tók settið og komst í 4-0. Michael van Gerwen var á þessum tímapunkti aðeins búinn að hitta þremur pílum í tvöfaldan reit í sautján tilraunum. Já, sautján.

Van Gerwen vaknaði loksins til lífsins í fimmta setti þar sem hann vann fyrsta legg. Littler jafnaði þegar hann tók út 130, en Van Gerwen bætti um betur í fjórða legg þar sem hann tók út 132 og vann loksins sitt fyrsta sett, staðan 4-1.

Littler og Van Gerwen unnu svo sitt settið hvor fyrir næsta hlé þar sem Littler komst í 5-1 áður en Van Gerwen minnkaði muninn á ný í 5-2 með góðu útskoti í toppinn.

Littler lét það þó ekki slá sig út af laginu og vann öruggan 3-0 sigur í áttunda setti, kom sér í 6-2 og var þá aðeins einu setti frá sínum fyrsta heimsmeistaratitli.

Van Gerwen gerði svo vel þegar hann vann næsta sett, en þá var það bara orðið of seint. Littler kláraði næsta sett örugglega, 3-0, og tryggði sér þar með heimsmeistaratitilinn með 7-3 sigri, hans fyrsta heimsmeistaratitill á ferlinum.

Vísir var með beina textalýsingu frá viðureigninni og má sjá hana hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×