Handbolti

ÍR byrjar nýja árið með besta hætti

Sindri Sverrisson skrifar
Katrín Tinna Jensdóttir skoraði fjögur mörk fyrir ÍR gegn ÍBV í dag.
Katrín Tinna Jensdóttir skoraði fjögur mörk fyrir ÍR gegn ÍBV í dag. vísir/Diego

ÍR byrjar árið 2025 af krafti í Olís-deild kvenna í handbolta og tvöfaldaði sigurfjölda sinn með góðum sigri á ÍBV í Vestmannaeyjum í dag.

ÍR vann aðeins einn af níu leikjum sínum í deildinni fyrir áramót, gegn botnliði Gróttu, en gerði einnig tvö jafntefli og var annað þeirra gegn ÍBV.

ÍR-ingar unnu svo af nokkru öryggi í Eyjum í dag, 26-23, eftir að hafa verið 15-13 yfir í hálfleik með því að skora síðustu fjögur mörk fyrri hálfleiksins. Eyjakonur skoruðu ekki mark á síðustu átta mínútum fyrri hálfleiksins.

ÍR komst svo í 21-16 um miðjan seinni hálfleik og hélt ÍBV í nokkuð þægilegri fjarlægð til loka, þó að Eyjakonur næðu að minnka muninn í tvö mörk á lokamínútunni áður en Sylvía Sigríður Jónsdóttir kórónaði flottan leik sinn með lokamarki ÍR.

Ingunn María Brynjarsdóttir varði vel í marki ÍR og er skráð með 15 varin skot hjá HB Statz. Sylvía Sigríður var markahæst gestanna með átta mörk og Katrín Tinna Jensdóttir kom næst með fjögur mörk.

Hjá ÍBV var Sunna Jónsdóttir markahæst með átta mörk.

Með sigrinum komst ÍR upp að hlið ÍBV og Stjörnunnar í 5.-7. sæti en liðin eru með sex stig, tveimur stigum meira en botnlið Gróttu og tveimur minna en Selfoss. Efstu þrjú liðin, Valur (20), Fram (16) og Haukar (14) eru lengra frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×