Erlent

Minkarækt hafin að nýju eftir að milljónum var lógað

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Minkarækt er hafin að nýju í Danmörku, fjórum árum eftir að fleiri milljónum minka var lógað í landinu. 
Minkarækt er hafin að nýju í Danmörku, fjórum árum eftir að fleiri milljónum minka var lógað í landinu.  EPA/Mads Claus Rasmussen

Fjögur ár eru síðan öllum minkum var lógað í Danmörku af heilbrigðisástæðum. Ákvörðunin var afar umdeild og framkvæmd hennar ekki síður. Nú er minkarækt hafin að nýju í Danmörku og viðbúið að iðnaðurinn haldi áfram að vaxa á næstu árum.

Á bilinu fimmtán til sautján milljónum minka á fjórtán hundruð minkabúum í Danmörku var lógað fyrir nokkrum árum þegar kórónuveiruafbrigði covid-19 greindist í nokkrum dýrum og óttast var að veiran gæti ógnað heilsu fólks. Nú, fjórum árum síðar eru um 43 þúsund minkar af fimmtán minkastofnum á sex búum í landinu en viðbúið er að þeim fari fjölgandi á næsta árinu að því er fram kemur í umfjöllun DR.

„Við fáum símtöl í hverri viku, fleiri en eitt, og síðan eru 25 á lista hjá okkur sem vilja opna minkabú,“ segir Louise Simonsen, formaður dönsku minkaræktarsamtakanna Danske Mink, í samtali við DR. Hún bætir við að allir á listanum hafi tryggt fjármögnun til að hefja rekstur.

Hún segir óhjákvæmilegt að minkarækt muni fara vaxandi á næstu árum í takt við heimsmarkaðsverð á feldi og tiltölulega lítið framboð af skinnum. Stærsta áskorunin við að stofna bú sé að finna pláss undir starfsemina en flestir fyrrverandi minkabændur sóttu um lokunarbætur frá ríkinu, úrræði sem boðið var uppá eftir ákvörðun stjórnvalda um að öllum mink skyldi lóga. Bæturnar eiga að dekka níu ára rekstrartap en hefji þeir rekstur að nýju eða selji búin missa þeir bæturnar. Louise kveðst þó bjartsýn um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×