Atlanta United leikur undir stjórn Norðmannsins Ronny Deila, sem áður stýrði Celtic, en Furuhashi er einmitt leikmaður Celtic.
Þessi 29 ára Japani, sem er með samning við Celtic sem gildir til 2027, hefur verið orðaður við Atlanta en í gær birtist frétt á vef MLS um að vistaskipti hans væru klár og hann genginn í raðir félagsins.
MLS hefur nú fjarlægt greinina og beðið alla hlutaðeigandi afsökunar, en mistökin virðast hafa legið í því að annar japanskur leikmaður gekk í raðir Atlanta. Fyrrverandi unglingalandsliðsmaðurinn Cayman Togashi samdi nefnilega við Atlanta og tilkynnti félagið um komu hans í gær.
Í yfirlýsingu segjast MLS-menn hafa „fyrir mistök birt grein þar sem rangur leikmaður var sagður hafa samið við MLS-félag. Greinin var umsvifalaust fjarlægð og leiðrétt. MLS biður alla hlutaðeigandi innilega afsökunar.“