Innlent

Á­fram óvissu­stig á Aust­fjörðum en af­létt á Vestur­landi

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Sérstökum viðbúnaði vegna krapaflóða og votra snjóflóða á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði hefur verið aflétt. Óvissustig er enn í gildi. Mynd af Seyðisfirði úr safni.
Sérstökum viðbúnaði vegna krapaflóða og votra snjóflóða á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði hefur verið aflétt. Óvissustig er enn í gildi. Mynd af Seyðisfirði úr safni. Vísir/Vilhelm

Óvissustigi vegna ofanflóðahættu hefur verið aflétt á Vesturlandi og sunnanverðum Vestfjörðum, en gert er ráð fyrir áframhaldandi óvissustigi á Austfjörðum fram til mánudags.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að snjór hafi sjatnað á Vesturlandi og hann mikið til tekið upp í lágum hlíðum ofan byggðar síðan í gær og nótt. Veðurspár geri ráð fyrir að hlýindin og rigningin séu að mestu gengin yfir og talið sé ólíklegt að stór ofanflóð falli nálægt byggð úr þessu.

Á Austurlandi hefur kólnað í veðri en hitinn er enn yfir frostmarki á láglendi og víða til fjalla. Nokkur krapaflóð hafa fallið yfir vegi á sunnanverðum Austfjörðum.

Fram kemur hjá Veðurstofunni að mesta rigningin virðist gengin yfir, en annað kvöld sé spáð rigningu og þar með sé gert ráð fyrir að óvissustig verði í gildi fram á mánudag af þeim sökum.

Vegfarendur og ferðafólk er hvatt til að sýna aðgæslu á stöðum þar sem grjót og skriður geta fallið og nærri vatnsfarvegum þar sem krapaspýjur geta borist niður.


Tengdar fréttir

Nokkur krapaflóð fallið yfir vegi og óvissustig vegna flóðahættu

Fjórtán íbúar á Patreksfirði, sem þurftu að yfirgefa heimili sín í gær vegna snjóflóðahættu, hafa nú mátt snúa heim eftir á hættustigi var aflétt. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er enn víða í gildi en Veðurstofunni er kunnugt um nokkur krapaflóð sem hafa fallið frá því í gær, meðal annars yfir vegi á Vesturlandi og á Austfjörðum. Varðskip Landhelgisgæslunnar er í viðbragðsstöðu fyrir vestan og almenningur er hvattur til að fylgjast vel með færð enda geti vegir lokast vegna ofanflóða.

Annasamt hjá björgunarsveitum vegna ofsaveðurs

Björgunarsveitir sinntu fimmtán útköllum víða um land í gær vegna veðursins sem gengur yfir landið. Í morgun losnuðu þakplötur af byggingum í Bolungarvík og ferðamenn í vanda voru sóttir á Fagradal í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×