Þetta kom fram í vitnisburði unga fólksins við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Aðalmeðferðin í máli Alfreðs Erlings hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur á tíunda tímanum. Alfreð Erling, 46 ára Norðfirðingur, er ákærður fyrir að verða hjónum á áttræðisaldri sem hann þekkti til að bana á heimili þeirra í Neskaupstað í ágúst í fyrrasumar. Talið er að hann hafi verið í geðrofi, notað hamar og slegið fólkið endurtekið í höfuðið með verkfærinu með fyrrnefndum afleiðingum.
Flestir hafi kannast við Alfreð
Af vitnisburðinum að dæma eru tvö ungmennin búsett í samliggjandi húsi við heimili hjónanna og það þriðja var í heimsókn hjá þeim. Um er að ræða tvo drengi við átján ára aldur og eina stúlku.
Drengirnir sögðust hafa verið að ræða Alfreð Erling þegar þau voru akandi í bíl þarna í bænum umræddan dag. Verjandi Alfreðs spurði annan piltanna hvers vegna þeir hefðu verið að ræða hann.
„Það var engin ástæða. Við vorum bara eitthvað að ræða rugludallana í þessum bæ. Það vita flestir hverjir hann er að nafninu. Allavega þssir sem eru þarna fyrir austan, Kannast allavega eitthvað við hann.“
Heyrðu hvelli og hljóð
Unga konan ók bíl sínum eftir götunni á heimleið þennan dag og drengirnir sáu Alfeð standa við útidyrahurðina hjá gömlu hjónunum. Þeir horfðu á eftir honum ganga inn til hjónanna en tóku ekki eftir því hvort hann hefði bankað eða ekki.
Svo hefðu þau verið í stofunni og heyrt hljóð úr hinni íbúðinni sem minntu annars vegar á að verið væri að færa til húsgögn og hins vegar hvelli. Það hefði verið óvenjulegt að heyra hljóð frá nágrönnum sínum því þaðan heyrðist yfirleitt ekki neitt. Þau hefðu einu sinni stoppað sjónvarpið til að hlusta frekar og svo farið út til að horfa í áttina að hinum hluta hússins.
Þar hefðu þeir séð Alfreð Erling. Þau hefðu svo farið aftur inn í íbúðina sína. Þau hefðu ekki haft áhyggjur af neinu og ekki áttað sig á neinu fyrr en lögreglu bar að garði daginn eftir.