Handbolti

Haukar flugu inn í 8-liða úr­slitin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Össur Haraldsson var markahæstur Haukamanna í dag.
Össur Haraldsson var markahæstur Haukamanna í dag. vísir / ernir

Haukar tryggðu sér í dag sæti í 8-liða úrslitum Evrópubikars karla í handknattleik eftir góðan sigur á slóvenska liðinu RK Jeruzalem á útivelli í dag.

Haukar voru búnir að koma sér í góða stöðu fyrir síðari leikinn ytra í dag en þeir unnu 31-23 sigur í fyrri leiknum að Ásvöllum um síðustu helgi.

Þrátt fyrir það var ekki um neitt vanmat að ræða þegar leikurinn hófst í dag. Haukarnir byrjuðu af miklum krafti, voru 8-4 yfir eftir tæplega tuttugu mínútna leik en heimalið Jeruzalem beit í skjaldarendur undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 12-12 að honum loknum.

Einvígið varð þó aldrei spennandi í síðari hálfleiknum. Haukar byrjuðu aftur vel eftir hlé og náðu fjögurra marka forystu á ný snemma í hálfleiknum. Forystan varð mest níu mörk í stöðunni 28-19 og lokamínútur leiksins voru lítið spennandi.

Lokatölur í dag 31-26 og Haukar vinna einvígið því samtals með þrettán mörkum og eru komnir í 8-liða úrslit Evrópubikarsins.

Össur Haraldsson var markahæstur hjá Haukum í dag með 6 mörk og þeir Geir Guðmundsson og Þráinn Orri Jónsson komu næstir með 4 mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×